151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna, það er alltaf áhugavert að hlusta á hv. þingmann. Ég er ekkert gefinn fyrir að ræða trúarleg málefni, ég verð að viðurkenna það, og sérstaklega trúarbrögð sem ég er ekki vel að mér í. Ég get alveg viðurkennt að ég hef fengið vaxandi áhuga á ritskýringu á ritum Biblíunnar og hef mikla ánægju af því að kynna mér þau. En það er þessi árekstur menningarheima sem hv. þingmaður var að tala um. Ég hef áhuga á að vita viðhorf hans hvað varðar þær áhyggjur sem má greina í nágrannalöndum okkar, ekki síst hjá Dönum. (Forseti hringir.) Ef hv. þingmaður myndi líta á sum af þeim gögnum sem ég hef verið að vitna í hér myndi hann sjá hvað þessar áhyggjur eru miklar. (Forseti hringir.) Spurning mín er: Gefur hann ekkert fyrir þessar áhyggjur?