151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef miklu meiri áhyggjur af uppgangi nýfasismans og hægri íhaldsmanna, eins og t.d. í Ungverjalandi, Póllandi og Bandaríkjunum. Það eru þau öfl sem draga þessa dagana úr frjálslyndum lýðræðisgildum í hinum svokallaða vestræna heimi. Ég hef einfaldlega meiri áhyggjur af þeim öflum. Það eru íhaldsöflin sem eru við völd. Ég er mjög fjandsamlegur öllum hugmyndum, trúarlegum eða annars staðar að, sem ganga í berhögg við frjálslynd lýðræðisgildi. En ef ég legg kalt mat á það hvaðan ógnin stafar í raunveruleikanum þá leiðir það hug minn ekki að kennisetningum íslam. Mér vitandi er ekki stakur þingmaður í gjörvallri Evrópu sem aðhyllist wahabisma, ég leitaði fyrir um ári, fann engan. Það er hins vegar nóg af þingmönnum, og allt of mikið af þeim, sem aðhyllast hugmyndafræði andstæða frjálslyndum lýðræðisgildum, sem koma (Forseti hringir.) úr hægri íhaldsátt og eru yfirleitt kristnir. Það skiptir ekki máli hver trúarbrögðin eru, ógnin sem ég sé kemur af nýfasismanum en ekki af íslam, alla vega ekki sem stendur.