151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að ég sé að stinga á kýlið. Ég hef t.d. heyrt ræðu frá hv. þm. Birgi Þórarinssyni, sem talar fyrst og fremst um kostnað og kannski tæknilegri atriði sem ég myndi ekki endilega blanda þessu við. Svo hef ég hlýtt á ræður hv. þm. Ólafs Ísleifssonar. Það er mér mjög skýrt, sér í lagi eftir að hafa lesið grein sem hann vísaði í í sinni ræðu, að þetta er það sem býr raunverulega að baki þegar allt kemur til alls.

Hvers vegna er fólk hrætt við að fá hingað mikið af fólki? Það snýst um óttann við menningarsundrungu og menningarágreining einhvers konar þegar allt kemur til alls. Þegar við höfum tekið tillit til umræðunnar um fjármögnunina kemur í ljós að við getum leyst það vandamál, jafnvel þó að við myndum ekki leysa það er ríkissjóður ekki fara á hausinn út af þessum málaflokki. Það er bara ekki þannig. Það er ekki að koma hingað of mikið af fólki, meira af fólki en við ráðum við, hvergi í sýnilegri framtíð. Þessar skýringar á óttanum standast ekki alveg. Sér í lagi ætla ég að vísa í málflutning hv. þm. Ólafs Ísleifssonar þegar kemur að því. Þetta þvælist fyrir, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) þetta er í bakgrunninum, þetta er það sem fólk þorir ekki að tala um af ýmsum ástæðum (Forseti hringir.) og þess vegna nefni ég það hérna. Ég er að stinga á kýlið.