151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við stuðningsyfirlýsingu mína við málið er þetta bara fullkomlega eðlileg spurning með hliðsjón af ræðu minni. Almennt tel ég auðvitað að þingmál geti alveg haft einhver hliðaráhrif út fyrir ætlunina þegar málið er lagt fram og mér finnst alveg þess virði að skoða það. Ég er bara búinn að skoða það og ég er búinn að skoða það nokkrum sinnum. Ég er búinn að lesa þetta frumvarp nokkrum sinnum í leit að einhverju sem gæti haft þau áhrif sem hv. þingmaður lýsir. Ég einfaldlega sé það ekki í þessu frumvarpi. Þarna er verið að samræma upplýsingagjöf og leiðbeina og eitthvað þess háttar. Ég bara trúi því ekki að það verði einhver sérstök gulrót fyrir fólk í útlöndum. Í fyrsta lagi held ég að það fólk þekki kerfið hreinlega ekki nógu vel og ef það þekkir það vel kemst það aldrei djúpt í einhverja umræðu. Það væri auðveldara fyrir einhverja smyglara einfaldlega að ljúga og segja að hér séu gull og grænir skógar fyrir alla sem vilja koma frekar en að fara í einhverja lagatækni um það hvernig sveitarfélög eru upplýst af einhverri stofnun á Íslandi. Ég bara sé ekki neitt í frumvarpinu sem myndi valda þeim áhrifum sem hv. þingmaður nefnir. (Forseti hringir.) Að því sögðu er alveg mögulegt að frumvarpið hefði þessi áhrif ef það væri öðruvísi en ég sé það ekki í þessu.