151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[23:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða þetta frumvarp. Mig langar að fara aftur í skýrsluna sem ég minntist á fyrr, sem fjallar um innflytjendur. Mér finnst þetta mjög merkilegt plagg og þess vegna vil ég fara aðeins aftur í hana og taka fram fleiri atriði sem skipta máli.

Lengi hafa Íslendingar verið einsleitur hópur en það hefur hins vegar breyst til mikilla muna. Hlutfall innflytjenda af íbúafjölda landsins hefur stöðugt hækkað, úr 3,6% árið 2001 í meira en 15% í janúar 2020. Í skýrslu sem kom út hjá Háskólanum á Akureyri kemur fram að markmið rannsóknarinnar sem gerð var, og skýrslan er afurð af, var að leggja mat á og auka skilning á því hvað felst í breyttri samsetningu íbúahópsins. Það var gert með því að rannsaka stöðu innflytjenda í samfélaginu með hliðsjón af tungumáli, atvinnustöðu, menntun, menningu og lífsreynslu. Rannsóknin miðaði líka að því að koma fram með gögn sem gætu nýst í stefnumörkun í málaflokknum.

Hægt er að segja að við stöndum núna frammi fyrir því að endurskoða hvernig við viljum haga okkar málum með vaxandi fjölda innflytjenda og hvernig við ætlum að standa okkur í að taka á móti fleira fólki. Það kallar á opna almenna umræðu og það verður að takast á við þau tækifæri sem blasa við og einnig þær áskoranir sem fylgja. Við erum hér að kalla eftir skynsamlegri umræðu um málið, alla vega sú sem hér stendur. Við vitum að þverpólitísk nefnd hefur verið að störfum, en hún virðist óvirk. Það hefur alla vega komið fram í máli hv. þingmanna fyrr í dag að sú nefnd hafi ekki fundað og þar með telst hún óvirk.

Eitt sem við þurfum að ræða í þessu sambandi er að skólar og skólakerfið ræður miklu um hvernig til tekst með aðlögun innflytjenda að samfélaginu þegar til lengri tíma er litið. Ef þessi aðlögun tekst ekki nægjanlega vel getur það leitt til þess að samfélag innflytjenda verði jaðarsett og þeir hafi ekki sömu tækifæri og aðrir. Það eru ekki öll sveitarfélög landsins með virka stefnu í t.d. kennslu innflytjendabarna, það kemur fram í þessari rannsókn, og það er svolítið umhugsunarefni þar sem við ætlum að fara að auka í, ef við getum sagt sem svo. Ef börnin verða mörg verður þjónusta við þau hugsanlega alls ekki fullnægjandi. Það þýðir að kennarar eiga erfiðara með að koma til móts við þarfir nemenda og þar af leiðandi verðum við að tryggja betri stuðning við kennara. Kennarar búa auðvitað yfir fagþekkingu en það þarf að gera enn betur ef við hlustum á raddir þeirra sem tjáðu sig í þessari rannsókn.

Það er líka annað sem kemur inn í þetta. Kennarar þurfa vissulega að standa vel að kennslunni en þeir þurfa líka að geta komið til móts við foreldra þessara sömu barna. Því er haldið fram að íslenskukunnátta sé lykillinn að vel heppnaðri aðlögun innflytjenda. Það er mikilvægt að fram komi, eins og ég kom aðeins inn á í ræðu fyrr í dag, að innflytjendur eru ósáttir við gæði þeirra námskeiða sem þeir sækja. Þeir segja að þeir geti talað og skilið íslensku eins vel og ef þeir hefðu ekki farið á námskeið. Það er að mínu mati stór áfellisdómur og ég tel að við eigum að staldra þarna við og gera betur, skoða og jafnvel taka út þessi námskeið. Ég tek það fram að ég held að það sé ekkert endilega við kennarana að sakast. Ég held að það sé miklu frekar umgjörðin. En samt er ætlast til þess að innflytjendur kunni og tali íslensku.

Íslendingar segja í þessari rannsókn að innflytjendur hafi góð áhrif á samfélagið og þar skipta máli menningarleg tengsl. Það er mjög gott að það komi fram. Í skýrslunni segir líka að það sé frekar lágt hlutfall innflytjenda sem taki þátt í borgaralegu samfélagi, en traustið er mikið. Það sem ég er að benda á hér er að við erum, eins og staðan er núna, á réttri leið. Þess vegna þurfum við að staldra við og athuga hvort sú leið sem við ræðum í þessu frumvarpi sé best til þess fallin að við höldum áfram á þeirri leið. En það kemur líka fram að eftir því sem fólk talar betri íslensku séu meiri líkur á því að það taki þátt í kosningum. Mér finnst þetta mikilvægur punktur og mér finnst mikilvægt að það komi fram að það er okkar að standa okkur í því að gera innflytjendum kleift að taka þátt í samfélaginu að fullu leyti og þar með talið kosningum, hafi þeir kosningarrétt.

Að lokum er í skýrslunni talað um að nokkuð vel hafi tekist til hingað til að vinna, en við getum gert betur, eins og ég hef sagt, og við eigum að gera betur. Ég hef vissulega verið að tala um innflytjendur en ekki flóttafólk, en þetta gefur samt ákveðna mynd af því að við stöndum okkur ekki nægjanlega vel. Grunnurinn er ekki nógu vel unninn. Ég kom inn á það í ræðu fyrr í dag að umgjörðinni um mál þeirra sem eru innan hælisleitendakerfisins er ágætlega sinnt. En það er ekki eins vel staðið að þeirri umgjörð sem er um innflytjendur og það er hætta á því að ef við tökum á móti fleirum en við ráðum við þá verði fleiri jaðarsettir og ég trúi því ekki að við ætlum að leggja upp í þá vegferð. Það á jafnvel við þá sem eru hér nú þegar. Það hlýtur að vera okkar að sjá til þess að skapa þessa umgjörð og vanda til verka þannig að fólk hafi tækifæri til að aðlagast íslensku samfélagi, fólk sem kemur hingað vill það flest, en það eru kannski hindranir í veginum. Ég mæli hér með því að við skoðum aðeins betur hvað við getum gert til að svo verði.