151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[23:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Hver er stefnan í málaflokki innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda? Hver er hún, hv. þingmaður Framsóknarflokksins? Hún er engin. En það er líka stefna að hafa enga stefnu. (Gripið fram í: Hver er stefnan þín?) Það er engin stefna. (Gripið fram í: Hver er stefnan þín?) Við erum búin að tala hér í nokkra klukkutíma um stefnu Miðflokksins, (Gripið fram í.) hv. þingmaður.

Í fyrri ræðu minni talaði ég um skipulagða glæpastarfsemi í tengslum við þetta mál. Við höfum óskað eftir skýrslu um viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra við uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi sem oft hefur erlendar tengingar. Ég starfaði á vettvangi lögreglunnar í nokkra áratugi og kannast við þessi málefni. Ljóti raunveruleikinn er sá að margir af þeim hælisleitendum sem hingað koma eru einkennalausir, vegabréfalausir og í einhverjum tilvikum fingrafaralausir. Lögreglan hefur í rauninni ekki hugmynd um hvaða fólk er hér á ferðinni eða hvaða bakgrunn það hefur, hvaðan það kemur og hvað það hefur verið að gera áður en það kom til Íslands. Til eru dæmi hér á Íslandi um að við höfum ekki hugmynd um það, hvorki löggæslan né aðrir, hvaða bakgrunn þetta fólk hefur. Þetta gætu þess vegna verið vígamenn frá stríðssvæðum, eins og hafa t.d. verið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir eru hér með litlu eftirliti og enginn veit í raun hvað þeir hyggjast fyrir. Eitthvað liggur að baki ef menn láta má af sér fingraför.

Ég var búinn að tala um stefnuna og fjármálin og ég ætlaði líka að tala um öfgarnar í tilefni af ræðu síðasta ræðumanns, öfgarnar sem birtast svo greinilega í þessum málaflokki. Ég ætla þá að gera að umtalsefni viðbrögð við frumvarpi sem nú er til meðferðar í þinginu. Þar sjást öfgarnar kannski best. Hægt er að sjá þær í gegnum umsögn sérfræðinga á því sviði sem um ræðir en frumvarpið gerir ráð fyrir að aldursgreiningar verði gerðar af félagsráðgjöfum og sálfræðingum en ekki réttartannlæknum. Öfgarnar ganga svo langt að þar er vísindalegum aðferðum við greiningar hafnað. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Í umsögn réttartannlækna um frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Má því færa rök fyrir því að umræddar breytingar á frumvarpi þessu íþyngi umsækjanda um alþjóðlega vernd enn frekar. Ólíklegt er að vafa um aldur umsækjanda sé eytt með sálfræðigreiningu þar sem engar rannsóknir liggja að baki eða styðja slíka greiningu og alltaf þurfi að koma til líkamsrannsókna. Greiningarferlið tekur þannig óhjákvæmilega lengri tíma og skrefum fjölgar.“

Þetta er verra fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, minna vísindalegt og verra. Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Að framansögðu má ætla að nái þessi breytingartillaga fram að ganga feli hún í sér óljósara og ógagnsærra aldursgreiningarferli en nú er, sem fyrir er mjög skýrt og gagnsætt, þvert á tilgang sinn. […]

Réttarlæknisfræðilegar aldursgreiningar snúast um það að tryggja börnum rétt sem þau eiga samkvæmt alþjóðasáttmálum t.d. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og koma í veg fyrir að fullorðnir taki sér þann rétt sem eingöngu er ætlaður börnum.“

Hér er komið frumvarp sem á að breyta þessu, gera þetta verra, tafsamara, erfiðara og óvísindalegra, en þetta liggur hér fyrir. (Forseti hringir.) Svona birtast öfgarnar okkur, herra forseti.