151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[23:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Í þessari umræðu hef ég einungis haldið þrjár ræður um þetta stóra og mikilvæga mál sem annars staðar á Norðurlöndum telst til allra stærstu pólitísku viðfangsefna og raunar þótt víðar væri leitað. Það vekur athygli að málið skuli ekki fá sömu athygli hér á Íslandi og það vekur líka athygli að þeir hv. þingmenn sem að nafninu til a.m.k. styðja þetta mál treysta sér ekki til að koma hér í umræðuna og útskýra hvers vegna þeir vilji fara allt aðra leið, raunar í þveröfuga átt miðað við þá stefnu sem nú hefur rutt sér til rúms annars staðar á Norðurlöndunum. Til þess að skýra þetta samhengi eða kannski frekar þversögn, milli þessa frumvarps ríkisstjórnar Íslands og þeirrar stefnu sem nú er að verða ráðandi á Norðurlöndunum, var ég aðeins byrjaður að fjalla um stefnu norrænna stjórnmálaflokka í þessu efni og var búinn að draga það fram að stefna íslensku ríkisstjórnarinnar er í raun jaðarstefna þegar litið er til stjórnmálaumræðu í öðrum löndum. Ég var sérstaklega byrjaður að geta um stefnu danskra jafnaðarmanna, taldi tilefni til að fjalla um þá stefnu beint og var aðeins farinn að vísa í inngangsorð stefnu þeirra. Þegar frá var horfið var ég búinn að rekja það að danskir jafnaðarmenn leggja mikla áherslu á að þeir sem vilja verða þátttakendur í dönsku samfélagi aðlagi sig samfélaginu og taki þátt í því, m.a. með vinnuframlagi, og jafnaðarmennirnir dönsku höfðu einnig rakið kostnaðinn við það ef sú væri ekki raunin. Ég held áfram þar sem frá var horfið, með leyfi forseta, eins og segir í inngangsorðum danskra jafnaðarmanna:

„Núverandi innflytjenda- og hælisstefna skapar ekki aðeins vandamál fyrir Danmörku heldur einnig ofbeldisfullt óréttlæti þar sem fólk á flótta býr við lífshættu og þar sem óprúttnir mansalar græða milljarða á ógæfu annarra. Á síðustu þremur árum hafa meira en 10.000 börn, konur og karlar drukknað í Miðjarðarhafi við að reyna að komast til Evrópu. Enn fleiri verða fyrir ofbeldi og misnotkun á leiðinni. Konur eru neyddar til vændis, fjölskyldur eru kúgaðar og fólk er selt sem þrælar.“

Hér er dregin upp raunsönn mynd af ástandinu sem við er að eiga til að færa rök fyrir því að það þurfi breytta stefnu, stefnu sem ýtir ekki undir þessa þróun heldur hvetur til annars. Og þeir halda áfram, dönsku kratarnir:

„Á sama tíma skiljum við þá veikustu eftir. Undanfarin fjögur ár hafa löndin í Evrópu eytt umtalsvert meira fjármagni en áður í úrvinnslu hælismála fyrir þá sem hafa lagt leið sína til álfunnar, jafnvel þótt margir reynist vera farandverkamenn sem ekki þurfa vernd eða eiga horfur á lögheimili í Evrópu. Það er til viðbótar við fjárhagsaðstoð sem veitt er í nærumhverfinu og til viðkvæmustu flóttamannanna. Við erum að vanrækja skyldur okkar gagnvart öðru fólki ef við látum núverandi kerfi halda áfram.

Herra forseti. Ég ætla að endurtaka þetta úr stefnu danskra jafnaðarmanna: Við erum að vanrækja skyldur okkar gagnvart öðru fólki ef við látum núverandi kerfi halda áfram. Á þessu byggist gagnrýni okkar og hún byggist ekki síður á því að íslenska ríkisstjórnin boðar það ekki aðeins að núverandi kerfi haldi áfram heldur vill fara í þveröfuga átt við það sem Danir, meira að segja væntanlega Svíar, Norðmenn, eru að stefna að og hafa náð furðu víðtækri, pólitískri sátt um.