151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu sem er ljómandi gott yfirlit yfir starfsemi utanríkisráðuneytisins. Það er líka gaman að sjá að þessar skýrslur þróast alltaf. Nú er myndefni orðið mikið og það er gott að glöggva sig á skiptingu verkefna hjá sendiskrifstofum eða sendiráðum o.s.frv. Þetta er því allt hið ágætasta plagg. Eins og ég sagði er skýrslan vitanlega fyrst og fremst yfirlit yfir hvað er búið að vera á döfinni í utanríkis- og alþjóðamálum, minna er um framtíðarmúsík.

Í rauninni má segja að við ættum fljótlega að setjast niður, stjórnmálamenn á Íslandi, og velta fyrir okkur hvort við þurfum að ræða sameiginlega framtíðarutanríkisstefnu fyrir Ísland. Við ræðum hér ýmsa málaflokka, en hver á heildarstefnan okkar að vera næstu áratugi? Ég segi þetta aftur; næstu áratugi. Ég ætla samt að bæta einu við, herra forseti, það er kannski jafnvel fullbratt að tala um áratugi vegna þess að heimurinn breytist svo hratt. Í það minnsta held ég að það sé hollt fyrir okkur að setjast niður, þverpólitískt, og reyna að rýna í þá kristalskúlu hvernig heimurinn muni þróast og hvar við þurfum þá að beita kröftum okkar erlendis. Ég kem kannski aðeins að því aftur á eftir þegar ég fer í gegnum skýrsluna.

Mig langar í upphafi að nefna að ráðherra fór réttilega yfir að ákveðnar breytingar hefðu orðið á þjónustunni. Auðvitað eru skiptar skoðanir um það sem er bara eðlilegt, hvort sem um er að ræða ný lög sem hér voru samþykkt eða heimasendiherra o.s.frv. Það er bara eðlilegt að menn skiptist á skoðunum um slíkt. En ég held að utanríkisþjónustan sé áfram einn okkar mikilvægasti útvörður, ef það má orða það þannig. Þetta er lítil þjónusta í samanburði við í rauninni bara allar aðrar. Einhver kann að segja að fámenn þjónusta, sem veitir reyndar mikla þjónustu svo að ég taki það nú fram, fylgi fámennu landi. En ég er ekki sammála því. Ég held að land eins og Ísland, og hef sagt það hér áður, þurfi að eiga stærri utanríkisþjónustu en í dag til að geta brugðist enn frekar við þeim áskorunum sem fram undan eru og eru í rauninni að koma til okkar á hverjum einasta degi. Eins líka til að þróa okkar viðskipti og samstarf um heiminn því að þetta breytist allt saman. Það sem voru fjarlæg lönd fyrir nokkrum árum eru komin býsna nálægt okkur í dag. Það eru nýjar hættur, nýjar ógnir, ný tækifæri og þess vegna eigum við að velta því fyrir okkur til lengri tíma hvernig stefnan á nákvæmlega að vera.

Ég hef líka verið talsmaður þess að það þurfi að stækka þjónustuna. Ég hefði viljað sjá undanfarin ár að auknir fjármunir væru settir til utanríkisþjónustunnar til að efla starfsemina. Þvert á móti hefur verið stigið á bremsuna, í það minnsta talað um sparnað og hagræðingu. Ég held að það séu röng skilaboð á þeim tímum sem við lifum í dag.

En að skýrslunni. Eðlilega er farið yfir þau áhersluatriði sem hafa verið í utanríkismálum í tíð þessarar ríkisstjórnar undanfarin ár, eins og norrænt samstarf og þróunarsamvinnu, og komið er betur að því hér á eftir. Að sjálfsögðu er líka fjallað um áskoranir í öryggismálum. Vissulega er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þar, ekki síst þegar við sjáum þessar nýju ógnir, ef það má orða það þannig, ógnir sem berast okkur í gegnum fjarskipti og þess háttar. Það er líka sú ógn sem er nefnd í skýrslunni þar sem þjóðir fara í rauninni í stríð en beita ekki fyrir sig hefðbundnum hermönnum heldur málaliðum eða einhvers konar leiguher, sem er líka nýtt, þar sem ómerktir hermenn ráðast jafnvel inn og taka landsvæði.

Á bls. 42 er fjallað um GRÓ, þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, en töluverðar breytingar hafa orðið á umhverfi þróunarsamvinnu undanfarin ár eftir að Háskóli Sameinuðu þjóðanna gerði ákveðnar kröfur á okkar góðu skóla. Við því var brugðist og tel ég að það hafi tekist ágætlega þótt ég verði að viðurkenna að í fyrstu hafði ég ákveðnar efasemdir um að sú leið sem farin var hafi verið sú rétta. Ég skal fúslega viðurkenna að ég held að ég hafi haft rangt fyrir mér þar. Mér sýnist þetta ganga ágætlega. Þróunarsamvinnan er gríðarlega stór hluti af útgjöldum okkar Íslendinga í utanríkismálum. Ef við tökum þessa svokölluðu tvíhliða þróunarsamvinnu og svo skuldbindingar okkar, fjölþjóðlegar og þess háttar, þá er helmingur útgjaldanna í þeim liðum. — Þegar maður ætlar að tala rólega þá líður tíminn enn þá hraðar.

Á bls. 64 er farið ágætlega yfir fríverslunarsamtökin og fríverslunarsamninga sem við höfum gert. Samkvæmt þeirri töflu var á síðasta ári búið að ljúka tveimur samningum, við Filippseyjar og Ekvador, en fyrr höfðu verið gerðir samningar við Georgíu og fleiri lönd. Vissulega eru mikilvægir samningar í pípunum, eins og við hið svokallaða Mercosur-viðskiptabandalag í Suður-Ameríku, sem ég held að sé mikilvægt að klára, og að sjálfsögðu þann samning sem hér er minnst á varðandi Indónesíu.

Við verðum hins vegar að velta fyrir okkur líka, hæstv. forseti, hvort við eigum mögulega að leggja enn þá meiri áherslu á viðveru eða einhvers konar starf utanríkisþjónustunnar í þessum fjarlægu löndum, í Asíu og Suður-Ameríku, eða horfa til þess í framtíðinni hvort við þurfum að opna þar fleiri sendiskrifstofur eða sendiráð til að sinna viðskiptum og koma sjónarmiðum okkar á framfæri þegar kemur að ýmsum alþjóðamálum auk þess, að sjálfsögðu, að sinna borgaraþjónustunni sem er gríðarlega mikilvæg og öflug hjá utanríkisráðuneytinu, líkt og raunar allar deildir og stofnanir þar.

Ég ætla ekki að koma mikið inn á NATO, ég hugsa að það verði gert hér á eftir. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að standa við skuldbindingar okkar þar. Ég nefndi örstutt áðan nýjar ógnir. Hér er talað um fjölþættar ógnir og fagna ég því.

Borgaraþjónustan er mikilvæg og hefur náttúrlega reynt töluvert á hana undanfarið ár.

Ég ætla aðeins, herra forseti — nei, frú forseti, afsakið, það þarf að koma ljós í ræðustól þegar skipt er um forseta, þetta gengur ekki. — Hér er yfirlit yfir heildarútgjöld okkar til utanríkismála og rekstur utanríkisþjónustunnar, mjög vel fram sett. Á bls. 102 er einmitt það sem ég ræddi um áðan, þróunarsamvinna okkar sem er 33% og samningsbundið framlag vegna fjölþjóðasamstarfs 17%. Það er nærri helmingur af útgjöldunum. Við eigum að sjálfsögðu að halda áfram að styrkja þróunarsamvinnu og gera enn þá meira þegar kemur að henni. Að mínu viti eigum við á sama tíma að reyna að stækka hinn helminginn af þessari köku. Við þurfum náttúrlega að standa við okkar þegar kemur að öryggis- og varnarmálum og við eigum að einbeita okkur meira og frekar að því að opna viðskipti. Þá gætum við þurft að stækka bláa hlutann af kökunni sem er stjórnsýslan af því að við þurfum að sjálfsögðu að geta sinnt þeim verkefnum. Ég vil vekja athygli á því að ég tel að þar þurfi að bæta töluvert í.

Það er ein spurning sem mig langar að skilja hér eftir, bara af því að hún hefur verið áhugaefni hjá mér um tíma og ég fagna því að búið sé að opna í Strassburg að nýju. Þá hljótum við að velta fyrir okkur, þegar formennsku okkar í Evrópuráðinu lýkur, hvort þar verður þá skellt aftur í lás eða hvort við ætlum að halda áfram að sinna þessu eins og við eigum að sinna því. Þetta er mikilvægur þáttur í okkar starfi, þ.e. að sinna því starfi sem fer fram hjá Evrópuráðinu.

Að lokum vil ég bara þakka fyrir þessa skýrslu. Þetta er gott yfirlit. Það sem við þurfum hins vegar að gera á næstunni, íslenskir stjórnmálamenn, er að ræða enn þá dýpra framtíðina, utanríkisstefnuna. Búið er að gefa út nokkur rit sem gagnast ágætlega við það. Ég held hins vegar að það þurfi að fara dýpra ofan í þetta og reyna að ná einhvers konar sameiginlegri sýn á utanríkisstefnu fyrir Ísland. En ég þakka ráðherra fyrir að flytja skýrsluna og starfsfólkinu fyrir að vinna hana.