151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

heimahjúkrun og ummönnunarbyrði.

[13:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það standa yfir núna samningar við sjúkraþjálfara af því að hv. þingmaður spyr um það m.a., reyndar spurði hann um nánast allt milli himins og jarðar í sinni síðari spurningu. En ég ætla að staldra sérstaklega við það að verið er að vinna að samningi við sjúkraþjálfara og vonandi klárast það bara núna á næstu vikum. Hv. þingmaður spyr sérstaklega líka um rekstrarkostnað hjúkrunarheimila og þá umræðu sem þar hefur verið. Komið hefur fram í fjölmiðlum að verkefnastjórnin sem ég skipaði til að greina þennan rekstrarkostnað hefur skilað sinni vinnu og greiningin byggist einkum á svörum rekstraraðila. En það eru nokkrar spurningar sem er ósvarað og verið er að fara í saumana á í samstarfi við rekstraraðila. Ég tel að það sé afar mikilvægt að þetta skref hafi verið stigið vegna þess að mitt mat er að það er óásættanlegt að togast stöðugt á um forsendur í umræðu sem er svona mikilvæg eins og þessi umræða er. Við þurfum að ná að stilla saman strengi í ljósi þess hversu mikilvæg þjónustan er og ekki síst til framtíðar með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar.