151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

698. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það þannig að frumvarpið sem hér um ræðir heimilar úttekt á séreignarsparnaði sem er ekki inn á lán, til íbúðakaupa eða neitt slíkt heldur hrein úttekt. Af því greiðist síðan fullur skattur í samræmi við skattalög. Í sambandi við það sem hv. þingmaðurinn er hins vegar inna eftir þá er það rétt að í fyrsta lagi eru í gildi lög um að einstaklingum — og það skiptir ekki máli hvaða einstaklingur þar á í hlut — sé heimilt að nýta sér séreignarsparnað upp að ákveðnu marki vegna kaupa á fyrstu eign í allt að tíu ár og það er án skattgreiðslna, skattfrjálst. Ég veit að þetta hefur skipt marga gríðarlega miklu máli, hvort heldur menn eru á almennum vinnumarkaði, eru öryrkjar, alveg óháð stöðu þeirra. Hæstv. fjármálaráðherra hefur auk þess lagt fram frumvarp, sem er til efnislegrar meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd og umsóknarfrestur rennur út 14. maí ef ég man rétt, þess efnis að heimilt verði að nýta séreignarsparnað inn á húsnæðislán ekki aðeins vegna fyrstu kaupa heldur einnig annarra eða þriðju eða fjórðu. Það verði svo, eins og gildir í rauninni núna fram í júní, framlengt um tvö ár.