151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:26]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í 1. umr. þessa máls ræddi ég að staða einkarekinna fjölmiðla væri okkur öllum ljós. Hún hefur auðvitað verið það lengi. Ég ræddi um að mikilvægi fjölmiðla fyrir samfélagið væri okkur sömuleiðis öllum ljóst og að í því ljósi væri seinagangur hæstv. menntamálaráðherra í þessu máli bæði sorglegur og alvarlegur. Ég held að segja megi að staða fjölmiðla sé ákveðinn spegill á stöðu lýðræðis í hverju samfélagi. Ég verð að segja að eftir að ekki bara þetta frumvarp heldur þessi staða hefur verið til umræðu í íslensku samfélagi árum saman þá finnst mér niðurstaðan í þessu máli og nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar ótrúleg vonbrigði. Ég er þeirrar skoðunar að það sé í þessum grundvallarmálum sem veikleiki ríkisstjórnarinnar verður svo áþreifanlegur og svo vandræðalegur, ríkisstjórnar sem er mynduð á breiddina, frá vinstri og yfir í hægri. Það hefur einhvern veginn svo oft þau áhrif að í málum þar sem reynir á grundvallarafstöðu verður niðurstaðan oft í þessa veruna, einhvern veginn engin. Það er engin hreyfing hér, það er engin breyting hér og hér eru litlar sem engar umbætur.

Markmið frumvarpsins er mikilvægt og það er gott. Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla er með þeim hætti að það þarf að skoða og bregðast þarf við. Ég styð það markmið en þegar það er gert þá skiptir auðvitað öllu máli að ræða hvað það er sem veldur þessari stöðu einkarekinna fjölmiðla hérlendis. Hvers vegna er rekstrarumhverfið svona þungt? Væri ekki eðlilegur upphafspunktur, bæði í samtalinu og í þeim aðgerðum sem eru síðan lagðar fram af löggjafanum, að rýna ástæðurnar og eiga við þær breytur sem hafa áhrif í þá átt og í þá veru að staða einkarekinna fjölmiðla er með þeim hætti sem við þekkjum? Það virðist þessi ríkisstjórn ekki geta. Hún getur ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um það hvort og þá í hvaða mæli RÚV á að vera á auglýsingamarkaði. Þess vegna er engin umfjöllun um það atriði. Þessi ríkisstjórn getur heldur ekki náð utan um þá staðreynd að erlendir risar eða erlendar efnisveitur taka til sín stóran hlut, greiða hér ekki laun, gjöld eða skatta en umsvif þeirra á markaði eru mikil. Ekki er tekið á þeim þætti heldur í frumvarpinu. Þetta frumvarp mun fyrst og fremst skila því, að loknum þeim tíma sem þessi styrkur tekur til, að viðhalda þessu erfiða og þunga rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla.

Samkvæmt frumvarpinu er markmiðið að efla einkarekna fjölmiðla, að gera þeim betur kleift að sinna hlutverki sínu í nútíma lýðræðissamfélagi. Kostnaður ríkisins vegna breytinganna, sem eru settar fram sem tímabundin aðgerð og reyndar ekkert ósvipað því sem við höfum séð um ýmsar aðrar Covid-aðgerðir, verður þá í þetta sinn allt að 400 milljörðum kr. En vegna þess að ekkert er fjallað um þessar lykilbreytur sem hafa áhrif á stöðu miðlanna, erlendar efnisveitur sem soga til sín fjármagn og síðan yfirburðastöðu RÚV, virðist hluti stjórnarþingmanna ekki hafa getað hugsað sér stuðning til fjölmiðla til langframa. Þessi leið, með því að fara ekki inn í þær breytur sem hafa leitt til þess að staða íslenskra fjölmiðla er með þeim hætti sem hún er, þá vilja menn eðlilega, vil ég meina, ekki fara í það að ætla til langframa að setja pening í fjölmiðla með þessum hætti. Þess vegna stendur eftir frumvarp sem mun bjóða styrki til loka ársins 2022.

Eftir alla þessa umfjöllun, bæði í samfélaginu og hér inni í salnum, er þetta niðurstaðan, einskiptisaðgerð. Svo er það auðvitað sjónarmið sem menn eru hér að ræða, hvort sú verði reyndin eða hvort framlengt verði í þessu. Ég þykist nú vita að það séu margir hér inni í þessum sal, ekki síst stjórnarþingmenn, sem munu ef til þess kemur styðja málið í þessum búningi einmitt vegna þess að þetta er einskiptisaðgerð, þ.e. vegna þess að hér er ekki hróflað við neinu af því sem máli skiptir.

Ég leyfi mér að fullyrða að hið pólitíska markmið og hið pólitíska samtal snerist um annað og meira en þetta. Það snerist um að skapa hér vænlegar aðstæður fyrir einkarekna miðla til að geta lifað af, til að geta dafnað og blómstrað. Fyrir er staðan sú að RÚV er auðvitað í ákveðinni yfirburðastöðu, í þeirri stöðu að vera bæði á fjárframlögum og með miklar tekjur af auglýsingamarkaði. Sú staða er ekki ný. Það er afdráttarlaus skoðun mín að vandaður innlendur ríkisrekinn fjölmiðill sé af hinu góða. Í því felst ekki að samþykkja þær leikreglur að einkareknir innlendir fjölmiðlar eigi sjálfkrafa að eiga erfitt uppdráttar. Ríksrekinn miðill og einkareknir eiga vel að geta lifað saman á markaði og jafnvel beint og óbeint stutt hver við annan með sameiginlegri tilvist sinni. Þess vegna var ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegt að ræða báða þætti þessa máls, ekki bara að setja þennan plástur, ekki bara að koma með mál sem hér eru a.m.k. sett fram sem einskiptisaðgerð heldur að leggja pólitískar lausnir á borðið. Við eigum vel að geta skapað þá umgjörð að hér geti starfað saman ríkisrekinn miðill og einkareknir.

Ég held að það sé mjög lítið hald í orðum hæstv. menntamálaráðherra sem reglubundið lýsir því yfir hér inni í sal eða í fjölmiðlum að hún vilji sjá tilteknar breytingar, að hún styðji tilteknar breytingar, að hún hafi tilteknar skoðanir og hugmyndir. Hún er ekki að leggja þær fram hér í þessu máli og hefur ekki gert alla sína ráðherratíð hvað fjölmiðlana varðar. Hún hefur ekki gert annað en að gefa reglulega út almennar yfirlýsingar um afstöðu sína til þess hvernig hlutirnir ættu að vera. Í þessu máli er ekki tekið á neinum þeim atriðum sem máli skipta og hafa í reynd haft þau áhrif að staða íslenskra fjölmiðla er með þeim hætti sem veruleikinn er. Það hefði verið bragur á því í þessu máli að standa með einhverri hugmyndafræði og einhverri afstöðu um það, hver svo sem hún nú eiginlega er, að hafa einhverja framtíðarsýn um það hvernig við ætlum að gera betur að þessu leyti.

Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé í því umhverfi sem við erum í í dag að styðja einkarekna fjölmiðla í ljósi grundvallarhlutverks þeirra í lýðræðissamfélagi og með það markmið að tryggja og efla lifandi og virka innlenda fjölmiðlaflóru. En auðvitað þarf að ræða það. Það að vera hlynnt því að þetta megi gera og eigi að gera þýðir ekki að hægt sé að skrifa upp á hvað sem er í þeim efnum og hvaða leiðir sem er í þeim efnum. Hér finnst mér líka skipta máli að horfa til þess að stuðningurinn geti komið raunverulega að gagni og að hann fari til þeirra miðla sem á honum þurfa að halda. Í hvaða formi ætti þessi stuðningur líka að vera? Væri eðlilegt að stuðningurinn sé þannig fram settur að verið sé að liðka fyrir um gjöld eða eitthvað í rekstrarumhverfi miðlanna með öðrum hætti en að beina til þeirra beinum greiðslum? Auðvitað á ekki að vera augljóst eða sjálfgefið að ríkið niðurgreiði fjölmiðlafyrirtæki sem þrátt fyrir allt eru jú á einkamarkaði, alls ekki sjálfgefið. Það er kannski í sjálfu sér lítil ráðdeild í þeirri pólitík að ætla að setja 400 millj. kr. plástur á fjölmiðla en geta ekki einu sinni gert tilraun til að skapa einhverjar þær leikreglur sem skila heilbrigðara og sanngjarnara eða sanngjörnu rekstrarumhverfi.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé sérstakt og það sé umhugsunarvert að fara þá leið sem meiri hlutinn er að gera, þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og meira að segja Vinstri grænna, að meiri hluti af þeim styrkjum sem eiga að fara út renni til stærstu fjölmiðlanna á Íslandi. Ég er ekki sammála því sem fram kom í máli hv. þm. Sigríðar Andersen að það sé einhver hægri nálgun að styrkja eigi stóru miðlana og vinstri nálgun í litlu miðlunum heldur kannski frekar að það sé spurning um almannahagsmuni og sérhagsmuni, hvers vegna, fyrst fara á þessa leið, sé lagt upp með að sníða einhverja þá umgjörð í kringum þetta að stærsti hlutinn fari til nokkurra stórra miðla.

Í því samhengi myndi ég vilja rifja upp, eins og er gert í nefndaráliti minni hlutans í þessu máli, hver umsögn Samkeppniseftirlitsins var við frumvarpið. Það skiptir auðvitað máli því að við erum að tala um eðlilegt og heilbrigt rekstrarumhverfi og eðlilegt og heilbrigt umhverfi fyrir samkeppni en Samkeppniseftirlitið minnti á það hvert markmiðið með fjölmiðlalögunum sjálfum væri; að stuðla að fjölbreytni annars vegar og fjölræði hins vegar í fjölmiðlum. Þá er það auðvitað aðeins á skjön við það markmið að ætla að setja út 400 millj. kr. pott þar sem leikreglurnar eru fyrir fram sniðnar með þeim hætti að þeir sem eru stærstir fái mest. Það fer einfaldlega gegn þessu markmiði.

Af þessari ástæðu styð ég breytingartillögu sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson hefur lagt fram, þ.e. að í þessu umhverfi og í þetta sinn sem við erum nú að afgreiða þetta mál verði styrkirnir, verði þetta að lögum, fleiri og nái þannig til fleiri aðila á markaði en verði þó óhjákvæmilega um leið lægri. Það þjónar því sjónarmiði sem er í þágu heilbrigðra samkeppnisumhverfis og ýtir undir fjölbreytileika. Það held ég að hafi heldur ekki með það að gera sem kom fram í ræðu hjá formanni hv. allsherjarnefndar að rökin þar að baki séu bara þau að lítil fyrirtæki séu einhverra hluta vegna betri en stór. Mér finnst þetta vera sjónarmiðið um fjölbreytni á markaði. Síðan held ég að líka mætti segja sem svo að innan þeirra marka sem við erum að ræða hér þá er einhver ráðdeild og skynsemi sem leiðir til þess að styðja ekki þá sem sterkastir eru fyrir.

Virðulegi forseti. Hlutverk fjölmiðla, eins og ég nefndi í upphafi, er okkur öllum ljóst og þeir gegna algjöru grundvallarhlutverki í lýðræðislegu og menningarlegu tilliti. Það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu fjölmiðla hérlendis vegna þessa hlutverks sem þeir gegna. En aftur er þessi staða ekki ný. Þess vegna er þetta mál hæstv. menningarmálaráðherra svo mikil vonbrigði. Það tekur ekki á neinum þeim þáttum sem hafa í reynd stuðlað að því að staða einkareknu fjölmiðlanna, margra a.m.k., er með þeim hætti sem reyndin er. Þetta mál breytir í reynd engu um það til lengri tíma litið.

Þegar nefndarálit meiri hlutans er lesið þá öskrar á mann þessi vandræðagangur að ræða ekki þau atriði sem máli skipta, að fara ekki í pólitíkina. Mikið er talað um það sem þarf að skoða. Ákveðin sjónarmið eru áréttuð en engin skref tekin. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír árétta það sem allir vita og þeir ætla að skoða skref en þeir ætla ekki að stíga þau. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að jafna stöðu innlendra miðla og erlendra, en leggur engar aðgerðir til í þeim efnum, engar aðgerðir sem gætu jafnað leikinn. Meiri hlutinn áréttar nauðsyn þess að bæta stöðu einkarekinna miðla en gerir það með þeim hætti í þetta sinn að leggja fram styrk. Það er ekkert um RÚV, eins og ég nefndi áðan, og það er nánast eins og enginn þingmanna meiri hlutans eða sjálfur hæstv. ráðherrann átti sig á því að þau eru við stjórnvölinn. Þau gætu lagt fyrir þingið einhverja pólitíska hugmyndafræði um það hvernig fjölmiðlaumhverfi á Íslandi á að líta út.

Ég sagði áðan og endurtek að ég er þeirrar skoðunar að mikilvægi fjölmiðla sé slíkt að í einhverju samhengi og við einhverjar aðstæður sé hægt að réttlæta stuðning við þá og að það verði þá gert í þágu þeirra almannahagsmuna sem eru að baki því hlutverki sem fjölmiðlarnir gegna. Fjölmiðlarnir eru einfaldlega liður í því að verja lýðræðið en það skiptir máli hvernig það er gert. Og vegna þess að ekkert á að gera við rætur vandans er þetta mál einhvern veginn í besta falli hálfsannleikur og dýr plástur.

Ég hugsa að ég haldi mig bara einfaldlega frá því að vera að ræða um einstök efnisatriði málsins. Ég myndi þó kannski vilja nefna að það er ansi opið hvað það er sem telst styrkhæft samkvæmt þessari leið, það er kannski með vilja gert, en þó kemur einmitt fram í nefndaráliti meiri hlutans þetta tungumál sem er svo áberandi. Það er talað um að skýra þurfi aðferðafræðina við útreikning styrkja. Það er rætt um að tryggja þurfi að fyrirkomulagið verði til þess að hafa jákvæð áhrif á fjölbreytni þrátt fyrir að ljóst sé að svo verði ekki. Það er talað um að huga þurfi að stöðu smærri fjölmiðla án þess að það sé gert í þessu máli. Það er talað um að taka megi til skoðunar að setja upp samkeppnissjóð án þess að það sé gert. Það er talað um að æskilegast sé að taka þetta fyrirkomulag betur til skoðunar seinna þrátt fyrir að málið snúist í reynd ekki um neitt annað en þetta tiltekna stuðningskerfi. Þarna er sem sagt ekki einu sinni hvað varðar hugmyndina sjálfa sem er lögð á borð að finna skýr svör um hvernig þetta muni virka og til hvers er eiginlega ætlast.

Afraksturinn af mikilli vinnu í þessu máli er hreint út sagt óskaplega lítill. Hér vantar pólitíska hugmyndafræði, hér vantar einhverja pólitíska afurð í samræmi við þá hugmyndafræði. Það er ekkert um RÚV, það er ekkert um erlendar efnisveitur. Stuðningur út árið 2022 upp á 400 milljónir en staða íslenskra fjölmiðla verður á þeim tíma og eftir hann, ekki síst eftir hann, hin sama. Fjölmiðlar fá sem sagt þennan tímabundna plástur sem almenningur greiðir fyrir en það eru engin sérstök fyrirheit um að almenningur fái að þessum tíma liðnum eða í kjölfarið heilbrigðara fjölmiðlaumhverfi til lengri tíma litið. Með þessu máli og eftir það stendur kannski spurningin: Værum við að ræða þessar leiðir, værum við að ræða þetta ef búið væri að skapa hér heilbrigt og eðlilegt samkeppnisumhverfi? Og síðan auðvitað spurningin hvort þetta úrræði sé þá komið til að vera.

Í lokin vil ég segja að ég er meðvituð um hversu þung staðan er á markaðnum og hversu mikilvægu hlutverki fjölmiðlar gegna. Ég ætla að styðja breytingartillögur minni hlutans með vísan til þeirra sjónarmiða sem ég rakti, þ.e. um fjölbreytileikann. Ég er satt best að segja ekki alveg búin að gera upp við mig hvað ég geri í kjölfarið en get séð fyrir mér, í því trausti og í því skjóli að hér er um tímabundna aðgerð að ræða og staðan er sú sem hún er, að styðja jafnvel þetta mál. En ég er bara alveg heiðarleg með það að ég hef satt best að segja ekki alveg gert það upp við mig. Ég get einfaldlega ekki leynt vonbrigðum mínum með dugleysi meiri hlutans hér.