151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þingmanns að það hafi gengið svo vel að koma með aðskilnað ríkis og kirkju. Ég klóraði mér mikið í hausnum því að ég hafði ekki hugmynd um hvað hv. þingmaður var að tala um, sérstaklega þegar ég skoða frumvarp til fjárlaga og sé þar framlög til þjóðkirkjunnar upp á 3,8 milljarða og fleiri atriði sem hækka upphæðina þó nokkuð. Kirkjugarðar upp á 1,2 milljarða og sóknargjöld sem þjóðkirkjan fær meiri hluta af, 2,7 milljarðar. Síðan er Ríkisútvarpið hins vegar með 4,5 milljarða. Ef búið er að aðskilja ríki og kirkju þá er samkvæmt þessu alveg jafn mikið búið að aðskilja ríki og Ríkisútvarp, miðað við fjárlagafrumvarpið alla vega og tölurnar sem eru þar fyrir framan okkur. Þegar allt kemur til alls eru bæði þjóðkirkjan og Ríkisútvarpið á fjárlögum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvar er þessi aðskilnaður ríkis og kirkju?