151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert ef hv. þingmaður vill hafa aðskilnað ríkis og Ríkisútvarpsins á sama hátt og ríkis og þjóðkirkju. Það væri áhugavert að sjá þá útfærslu. Ég hlakka til að sjá hvernig það fer í næstu kosningabaráttu. Það verður bara áhugavert. Við glímum dálítið við það vandamál varðandi kirkjuna að við sem ríkisvald erum ekki að kaupa neina þjónustu af kirkjunni. Það er ekki skilgreint í neinum samningum hvað við erum að fá fyrir þessa allt of mörgu milljarða sem fara til þjóðkirkjunnar. Það er eitthvað aðeins betur skilgreint í lögum varðandi Ríkisútvarpið. En eins og komið hefur fram í máli ýmissa er kannski mismunur á því hvað af því fólk telur vera uppfyllt. Það er alla vega reginmunur á því og að hafa í rauninni ekki neitt í höndunum um hvað eigi að fá fyrir þessa þó nokkru milljarða sem fara til þjóðkirkjunnar. (Forseti hringir.) Ef við ætlum að fara í einhvers konar sameiginlegt (Forseti hringir.) fyrirkomulag þar sem annaðhvort þjóðkirkjan er þá ekki á fjárlögum og þá Ríkisútvarpið ekki á fjárlögum — er hv. þingmaður að leggja það til eða er það eitthvað annað?