151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:37]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hefði sjálfur helst viljað að það væri ekkert útvarpsgjald, einhver sérstakur skattur til að reka ljósvakamiðil eða einhvern miðil. Því er ég kannski ekki alveg sammála þeirri aðferð að við ættum bara að velja í hvaða miðil það færi og halda því áfram. Ég horfi miklu meira á að hér verði alvörufjölmiðlamarkaður þar sem menn geta keppt á jafnréttisgrundvelli en ekki að ríkið sé allsráðandi. Það er ekki þar með sagt að ríkið styðji ekki við menningarstarfsemi, hvort sem það er í útvarpi eða sjónvarpi eða einhverju öðru. Kannski af því að ég er orðinn það fullorðinn tel ég mikilvægt fyrir samfélagið að við styðjum við íslenska menningu, íslenska tungu. Ég trúi því að Miðflokksmenn séu sammála mér í grunninn með það. En við getum ekki leyft okkur að hafa svona skakka stöðu á fjölmiðlamarkaði þar sem við erum að reyna að tryggja jafna stöðu allra á öllum öðrum markaði í íslensku samfélagi, að enginn sé ráðandi. Við erum með samkeppnislög, samkeppniseftirlit, en við erum alltaf tilbúnir til að víkja því öllu til hliðar þegar ríkisvaldið er annars vegar. Er Miðflokkurinn ekki sammála því að það sé óeðlilegt? Við náum aldrei almennilegum markaði, engum fjölbreytileika, engu sjálfstæði fjölmiðla við þær aðstæður. Þetta er það sem ég er að reyna að draga fram og ég held að í grunninn séu Miðflokksmenn sammála. Kannski er það bara millileikur að fara þessa leið, að hafa eitthvert útvarpsgjald, að maður geti valið hvert það fer, eins og er með sóknargjöldin til kirkjunnar eða lífsleiknifélaganna? (Forseti hringir.) Það er svona millileikur. Hvað segir hv. þingmaður um þetta?