151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

798. mál
[13:46]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Samkeppniseftirlitið er gríðarlega mikilvæg stofnun í okkar samfélagi. Það er í hæsta máta eðlilegt að skoða starfsemi hennar eins og annarra stofnana sem við rekum sameiginlega til að gæta að hagsmunum borgaranna. Það vekur hins vegar athygli að í þessari ítarlegu skýrslubeiðni um tiltekin atriði er ekki vikið einu orði að því hvaða áhrif mönnun og fjármögnun stofnunarinnar kunni að hafa á meðferð þessara mála. Ég sakna þess sérstaklega að skýrslubeiðendur, sem hafa mikinn áhuga á að fá góða greiningu, skuli sleppa svona mikilvægum þætti. Ef maður hefur hvorki peninga né mannafla til að sinna verkefnunum þá taka þau langan tíma. Er það ekki rökrétt ályktun? Ég skora því á skýrslubeiðendur að sjá til þess að þessi atriði verði tekin með í reikninginn þegar skýrslan verður unnin en ég mun styðja skýrslubeiðnina.