151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:04]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Markmið frumvarpsins er gott og við getum örugglega öll verið sammála um það. Við hljótum líka að geta verið sammála um að þetta frumvarp mun ekki gerbreyta umhverfi fjölmiðla á Íslandi. Við þurfum að gera meira. Hæstv. menntamálaráðherra hefur m.a. skipað starfshóp sem á að endurskoða hlutverk RÚV, ekki bara út frá auglýsingamarkaði heldur mörgum fleiri þáttum. Þetta er líka Covid-aðgerð. Í þriðja lagi áréttar meiri hlutinn í sínu nefndaráliti að fara þurfi í skoðun varðandi skattalegt umhverfi erlendra streymisveitna sem hv. þm. Páll Magnússon útskýrði ágætlega áðan. Þetta liggur svona og ég held að við getum sameinast um að greiða þessu máli atkvæði nú. En svo þurfum við að sjálfsögðu að halda áfram í þessari vinnu og gera umhverfi fjölmiðla þannig að þeir séu lífvænlegir. Markmiðið er, eins og ég segi, að styrkja lýðræði á Íslandi og upplýsta umræðu.