151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þessa umræðu. Ítrekað hefur þjóðin kallaði eftir því að sett verði auðlindaákvæði í stjórnarskrána. 82% kjósenda vildu auðlindaákvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012. Síðan eru liðin níu ár. Við skuldum þjóðinni auðlindaákvæði og það er alveg ljóst að þjóðin mun ekki treyst okkur fyrr en við efnum það loforð. Við erum með stórfurðulegt kerfi sem heitir almannatryggingakerfi, kerfi sem enginn treystir, bútasaumsóskapnað sem veldur því að hellingur af fólk lifir, ekki bara í fátækt heldur sárafátækt og þetta fólk bíður enn eftir réttlætinu. Enn bíður það. Hvert er réttlætið? Jú, ef það fær 100.000 kr. úr lífeyrissjóði þá skilar það 26.740 kr. að hámarki í vasann.

Við erum alltaf að tala um traust en á sama tíma og við biðjum um traust hérna þá látum við þúsund börn bíða á biðlistum eftir ýmsum aðgerðum og við vitum ekki einu sinni hversu mörg þeirra bíða á biðlista eftir því að komast á réttu biðlistana. Þetta er hreint og klárt ofbeldi sem við eigum að skammast okkar fyrir. Ef við viljum traust þá eigum við að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að þau sem þurfa læknishjálp eigi fjármuni fyrir mat í meira en einn dag eða eina viku í mánuði, að þau þurfi ekki að bíða mánuðum, árum saman, jafnvel tugi ára, með fjórflokkinn við völd sem viðheldur kerfinu og kemur með enn þá meiri skerðingar. Enn þá meiri ömurlegheit með auknum skerðingum, eins og kom fram áðan, auknar skerðingar á fjórum árum um yfir 20 milljarða. Það er bara ávísun á fátækt.