151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að stórum hluta til sammála hv. þingmanni í því sem hann endaði sitt fyrra andsvar á. Hins vegar vil ég líka segja að þegar gripið er til aðgerða með jafn skömmum fyrirvara og við vorum að gera er kannski ekki alltaf hægt að sjá til lands hvernig þær aðgerðir virka. Ég held að við þurfum bara að viðurkenna að stundum hafi verið yfirskot og stundum undirskot. Ég held að við þær aðstæður sé eðlilegt að kannast við að svo hafi verið og vinna bara úr því. En tíminn og lausnirnar voru ekki tíndar af trjánum, alla vega ekki lausnirnar.

Í seinna andsvari mínu við ræðu hv. þingmanns ætla ég að fara í þann hluta hennar sem fjallaði um regluverk. Þar fjallaði hv. þingmaður um umsögn Samtaka iðnaðarins sem ég tek undir með þingmanninum að hafi verið mjög góð. Það eru þessir löngu skipulagsferlar og þetta þunglamalega kerfi sem eru einhvers konar kransæðastíflur eðlilegs efnahagslífs, uppbyggingar og sóknar í mínum huga, svo að ég gerist svolítið skáldlegur. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er nákvæmlega verkefnið sem við verðum að ráðast í; að einfalda þetta kerfi og gera það skilvirkara.

Þá langar mig í seinna andsvarinu við hv. þingmann aðeins að biðja hann að fara inn á þær brautir hvernig hann sjái fyrir sér að við getum einfaldað þetta. Við höfum ákveðnar skyldur og ákveðin hlutverk en við þurfum á einföldun og skilvirkni að halda. Hvað hefur hv. þingmaður að leggja fram í því?