151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun sem er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar. Þótt að einhverju leyti megi segja að það sé sérstakt að hún komi fram á síðustu vikum þingstarfa kjörtímabilsins þá rímar það ágætlega við yfirlýst markmið forsvarsmanna þessara þriggja flokka sem nú mynda ríkisstjórn að vinna saman áfram fái þeir umboð til þess að loknum kosningum í september og eðlilegt úr því að þær yfirlýsingar eru nýjar af nálinni að þessi áætlun sé skoðuð í því ljósi. Það hefur margt gengið á í samfélaginu á þessu kjörtímabili sem senn lýkur og þá sérstaklega síðastliðið ár og í sjálfu sér engin þörf á að rifja það upp. En það er ljóst að mikið uppbyggingarstarf er fyrir höndum og það er ekki síður mikið í ljósi þess að við vitum, eins og hér hefur verið margrætt, að staða ríkissjóðs var ekkert sérstaklega björguleg áður en kom að þeirri dýfu sem við tókum vegna Covid-samdráttarins og öllu sem fylgdi. Það er því mikið verk fram undan að koma hreyfingu á atvinnulífið og styðja við endurreisn þúsunda starfa, tryggja efnahagslegan stöðugleika, tryggja nauðsynlega grunnþjónustu um land allt og bæta lífskjör íbúa landsins til frambúðar.

Það eru að koma kosningar. Það er vilji til þess meðal ríkisstjórnarflokkanna að halda þessari ríkisstjórn áfram og þetta er stefnuplaggið. Þetta eru fyrirætlanir ríkisstjórnar um rammann og grunnsviðsmyndir fyrir endurreisn atvinnulífsins næstu ár. Hér hefur verið rætt um þetta plagg, þessa stefnu ríkisstjórnarinnar, í á annan dag og tveir hv. þingmenn Viðreisnar, Jón Steindór Valdimarsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, hafa farið vel yfir stóru myndina út frá sjónarhorni okkar í Viðreisn. Ég ætla ekki að draga dul á það að þessi fjármálaáætlun er mikilvæg og merkileg fyrir margra hluta sakir, hún er þetta plagg inn í framtíðina vegna þess að við búum á tímum sem fela í sér býsna mikla áskorun fyrir okkur. Mér þykir líka merkilegt hvað er ekki í henni. Falinn undir yfirborðinu er gríðarlegur kostnaður sem hefur áhrif á samfélagið okkar, á heimilin, einstaklinga, atvinnulíf, sveitarfélög og kemur í leið í veg fyrir að við getum sinnt öðrum og mikilvægari verkefnum, staðið undir öðrum og mikilvægari útgjöldum, staðið fyrir annarri og mikilvægari uppbyggingu. Og hver er þessi kostnaður? Hvaðan stafar hann? Þetta er, herra forseti, kostnaðurinn sem fylgir því að halda uppi krónunni, sem fylgir því að halda uppi örgjaldmiðli í opnu hagkerfi. Kostnaður við krónuna birtist m.a. í samanburði við evru, í samanburði við vexti lántakenda á milli landa. Þannig hefur vaxtamunur á tíu ára ríkisskuldabréfum á milli Íslands og Þýskalands verið 4–6% og stundum mun meiri á síðastliðnum árum. Nú er munurinn 4% og hann fer hækkandi. Ef við tökum varlegan samanburð og gerum ráð fyrir að 3% vaxtamunur sé á milli krónu og evru þá borgar ríkissjóður 3% hærri fjármagnskostnað af skuldum eða a.m.k. helmingi hærri fjármagnskostnað en innan evrunnar. Árið 2019 voru skuldir ríkissjóðs að hluta, fyrir utan lífeyrisskuldbindingar, um 1.200 milljarðar en 3% hærri vextir en innan evrunnar, af því eru tæpir 40 milljarðar samkvæmt einföldum reikningsaðferðum — auðvitað eru þetta mjög einfaldar reikningskúnstir en þær eru varkárar og þær segja mikla sögu — sem eru þá óþarfakostnaður ríkisins sem rekja má með beinum hætti til krónunnar. Ef við notum sömu aðferð, bætum á sama hátt við kostnaði af gjaldeyrisvaraforðanum, sem er um 900 milljarða kr., þá er hann um 30 milljarðar á ári. Kostnaður ríkisins af skuldum sem rekja má til krónunnar er þá 70 milljarðar á hverju ári, bara vegna A-hluta ríkisins og Seðlabankans.

Ég sat líkt og nokkrir aðrir þingmenn í gær á áhugaverðri ráðstefnu Öryrkjabandalagsins þar sem m.a. var kynnt skýrsla um kjör lífeyrisþega, samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða í mótun tekna. Í þeirri skýrslu er í helstu niðurstöðum bent á að það muni kosta um 30 milljarða að hækka verulega frítekjumarkið gagnvart greiðslum úr lífeyrissjóðunum, úr 25.000 kr. í 100.000 kr., og hækkun óskerts hámarkslífeyris almannatrygginga úr 333.000 kr. í 375.000 kr. Þetta eru tvær af grunntillögunum sem lagðar eru fram til úrbóta á því sem allir þekkja sem slæma og allt að því óboðlega stöðu hvað varðar kjör öryrkja meðan menn réðust í það risaverkefni að endurskoða kerfið. Þetta kostar um 30 milljarða á ári samkvæmt skýrslunni, aðgerðir sem myndu draga stórlega úr viðvarandi lágtekjuvanda meðal lífeyrisþega og bæta virkni kerfisins. Síðan bendir Öryrkjabandalagið auðvitað á að raunkostnaður við þetta yrði alls ekki svo hár því að hærri greiðslur myndu skila sér beint út í hagkerfið þannig að raunkostnaðurinn yrði nær 22–23 milljörðum á ári. Síðan getum við skoðað þær fjárhæðir, þótt stórar séu, í samhengi við kostnað ríkissjóðs af krónunni.

Þegar við tölum um kostnað ríkissjóðs af krónunni er ekki úr lagi að bæta líka við kostnaði heimilanna vegna þess að sú fjármálaáætlun sem við ræðum hér hefur ekki síður áhrif á hag heimila á næstu árum. Skuldir heimilanna eru um 2.000 milljarðar kr. og með sömu reikningsaðferð, varkárri, þá er viðbótarkostnaður þeirra um 60 milljarðar á ári hverju. Þegar við bætum fyrirtækjum og sveitarfélögum í dæmið, en fjármálaáætlunin sem við ræðum hér hefur líka gríðarleg áhrif á þeirra hag, á efnahagsumhverfið sem þau munu sinna skyldum sínum í, er ljóst að þau eiga mikið undir líka. Þegar við bætum þeim inn í dæmið er heildarkostnaður lántakenda sem rekja má til krónunnar hjá ríki, heimilum, atvinnulífinu og sveitarfélögum ekki mældur í tugum heldur hundruðum milljarða.

Herra forseti. Við getum ekki lokað augunum fyrir þessum vanda óháð því hvaða skoðun menn hafa á mikilvægi krónunnar — ég geri mér grein fyrir því að þingmenn hafa ólíka skoðun á því. Sumir telja fullveldi og sjálfstæði landsins velta á því að íslensk króna sé hér, aðrir kunna ekki við að gefa eftir í baráttunni gegn Evrópusambandinu með því að opna augun fyrir þessum vanda o.s.frv. En vandinn hverfur ekki með því að loka augunum fyrir honum. Hann er til staðar. Þessi viðbótarkostnaður er þarna. Stuðningsmenn krónunnar vísa gjarnan til þess að hún sé nauðsynleg til að halda atvinnustigi í landinu háu svo að hægt sé að fella gengið og lækka kaupmátt almennings án þess að kalla það launalækkun. En það er launalækkun og við búum núna við atvinnuleysi í hæstu hæðum. Leiðin út úr atvinnuleysi felst ekki síst í því að við náum að efla hér nýsköpun og það sem meira er, að við náum að halda í hagkerfinu okkar þeim fyrirtækjum sem vaxa upp á grunni nýsköpunar fyrir tilstilli frumkvöðla. Krónan hjálpar ekki þar.

Atvinnuleysi hefur aukist hlutfallslega mest hér af öllum samanburðarlöndum okkar og við lok tímabils fjármálaáætlunar eftir hálfan áratug gerir ríkissjóður enn ráð fyrir 4–5% atvinnuleysi. Þetta er grafalvarleg staða, herra forseti, og þess vegna þurfum við að ræða þessi mál á Alþingi. Við þurfum að þora í umræðuna. Við þurfum að vilja í umræðuna, við þurfum að velta við öllum steinum og rýna málin á opinn og hlutlægan hátt vegna þess að opin, fagleg og almenn umfjöllun er forsenda þess að við getum greint hætturnar og fundið hagkvæmustu og bestu leiðina í fjármálum ríkisins. Sú leið verður aldrei fundin ef við snúum blinda auganu að krónunni.