151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður vildi taka okkur aftur fyrir Covid og skoða stöðuna þá. Hvernig var staðan t.d. í stóru atvinnugreininni sem hefur fengið þennan mikla skell í heimsfaraldrinum? Auðvitað var kominn samdráttur þá. Það var meira að segja kominn samdráttur snemma á árinu 2019 í aðdraganda þess að WOW féll, og svo þegar það flugfélag féll, og síðan var auðvitað kominn samdráttur vegna þess að krónan var svo sterk. Það er einhvern veginn þannig sem þetta virkar; við fögnum því að hingað komi ferðamenn til að drífa áfram hagvöxt og efnahag, þeir koma með gjaldmiðilinn sinn og skipta yfir í krónur og krónan styrkist og það verður til þess að hér verður allt dýrara og ferðamönnum fækkar aftur.

Ég veit að við hv. þingmaður erum sammála hvað varðar Evrópusambandið og evruna og allt það, en hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér gerast núna þegar við erum að sigla upp úr þessari efnahagslægð og treystum svona mikið á eina atvinnugrein? Til dæmis er í fjármálaáætluninni sem við vorum að fjalla um fyrr í dag lítið talað um annað en að ferðaþjónustan eigi að bera uppi sterkustu stoðirnar í atvinnulífinu. Hún er mikilvæg atvinnugrein, en hvað mun gerast í samspilinu milli gengis og þessarar atvinnugreinar í náinni framtíð?