151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[20:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vil nú gera grein fyrir í stuttu máli þeim fyrirvara sem ég set við þetta annars ágæta mál. Ég er t.d. hrifinn af því að atkvæðagreiðslur skuli einfaldaðar og forseti á hverjum tíma fái meiri völd til að segja meira um hversu miklum tíma er eytt í atkvæðagreiðslur o.s.frv. Það er ég ánægður með. Af nokkuð biturri reynslu set ég fyrirvara við svör við fyrirspurnum til þingmanna af hendi ráðherra. Það kemur ekki til af góðu. Það kemur m.a. til af því sá sem hér stendur hefur orðið fyrir því oftar en einu sinni að þurfa að bíða milli þinga eftir svörum við fyrirspurnum til ráðherra. Það hefur meira að segja gengið svo langt að að dómi aðallögfræðings þingsins hafa ráðherrar farið á svig við lög um ráðherraábyrgð og lög um þingsköp í tregðu sinni við að svara fyrirspurnum.

Réttur þingmanna til að bera fram fyrirspurnir er ærinn. Hann er stjórnarskrárvarinn. Það er ekki hægt að gleyma því að menn segja stundum: Það er orðið svo mikið af þessum fyrirspurnum, ráðherrar og ráðuneytin hafa ekki undan að svara þessu. En það fer engin fyrirspurn héðan út úr húsi nema forseti skrifi upp á fyrirspurnina. Ég man nú ekki eftir nema undantekningartilfellum þar sem fyrirspurnir hafa augljóslega verið annaðhvort einhver athyglissýki eða eitthvað slíkt eða vísvitandi leiðir til þess að að láta menn eltast við fánýti, ég man bara eftir því í undantekningartilfellum. Yfirleitt eru fyrirspurnir lagðar fram hér á þinginu vegna þess að þær eru um mál sem varða almenning og almannaheill. Þannig var t.d. um þær fyrirspurnir sem sá sem hér stendur hefur lengst þurft að bíða eftir svörum við þótt þau hafi flest skilað sér. En þó get ég látið þess getið hér að ég á enn útistandandi fyrirspurn frá 4. febrúar síðastliðnum. Hún er ekki flókin, síður en svo, en svar við henni hefur ekki borist. Það sem er kannski líka til að ergja þá sem hér sitja inni er að það er ekki alltaf sem ráðherrar biðja um frest til að svara. Það kann vel að vera að þessir 15 dagar, sem nefndin var sammála um að halda í, séu knappir, sérstaklega ef um viðamikla fyrirspurnir væri að ræða, séu of stuttur tími. En þá þurfa ráðherrar einfaldlega að biðja um frest. Ég man ekki eftir öðru en að því hafi verið ljúflega tekið, enda hafa menn svo sem ekki marga möguleika hér til að gera uppsteyt ef ráðherrar svara ekki á tilsettum tíma. Það sem ég hef kannski helst við þetta frumvarp að athuga er að það skortir í sjálfu sér, mér leiðist að segja viðurlög en samt í þá áttina gagnvart þeim ráðherrum sem ekki heiðra þann svartíma sem þeim er ætlaður.

Það er jú til ein leið. Af því að ég minntist hér á áðan að ráðherrar hefðu farið í blóra við lög um ráðherraábyrgð þá eru til viðurlög við því. En það eru reyndar viðurlög sem ég hef eiginlega skömm á, það er landsdómur. Það væri nú frekar þungt ef kalla þyrfti út landsdóm svona 50 sinnum á ári út af því að ráðherrar svara ekki fyrirspurnum á réttum tíma. Það væri frekar viðurhlutamikið. En engu að síður þykir þeim sem hér stendur illt að það skuli ekki vera neitt í sjálfu sér sem hvetur ráðherra til að svara innan tilskilins frests. Það var nú sagt í hálfkæringi, en sá sem hér stendur stakk upp á því á nefndarfundi um daginn að hugsanlega væru dagsektir rétta svarið. Þær myndu þá beinast að ráðherra persónulega í hverju og einu tilfelli. En það var í hálfkæringi sagt. Engu að síður fylgir öllu gamni nokkur alvara. Það er mjög alvarlegur hlutur að mínu mati og að mínum dómi ef ráðherrar skirrast við að svara fyrirspurnum sem eru grundaðar. Og mér þykir illt að fyrirspurnum sem fengið hafa samþykki forseta þingsins áður en þær fara héðan úr húsi skuli ekki meiri gaumur gefinn en oft og tíðum hefur verið raunin hér.

Því fer fjarri, því miður, að sá sem hér stendur sé einangrað tilvik eða tilfelli í því meðal þingmanna að fá ekki svör. Það hefur oft borið við, og þá undir liðnum fundarstjórn forseta núna upp á síðkastið t.d., að þingmenn hafa kvartað ítrekað yfir því að fá ekki svör við fyrirspurnum sínum og jafnvel að fá ekki einu sinni beiðni um frest á skilum á framkomnum fyrirspurnum. Það er þessi fyrirvari sem varð til þess að ég vildi ekki leggja nafn mitt alveg 100% við þetta nefndarálit. Þó að í grunninn sé málið gott og sé til þess fallið að liðka fyrir störfum hér og nýta tíma þingsins betur, þá er þetta ljóður á.

Réttur þingmanna til að bera fram fyrirspurnir er stjórnarskrárvarinn. Eftirlitshlutverk þingmanna og eftirlitshlutverk þingsins, af því að hver og einn þingmaður er jú hluti af þessu þingi, hann er ekkert eyland — þetta eftirlitshlutverk er mjög mikilvægt og mjög mikilvægt aðhald við framkvæmdarvaldið. Það ber líka að minnast á það að núverandi ríkisstjórn er mynduð m.a. til að efla Alþingi, segir á kápu samstarfssamnings ríkisstjórnarinnar. Þetta er fallegt fyrirheit en það hefur ekki alltaf farið mikið fyrir því hér í þingstörfum á þeim fjórum árum sem nú eru að verða liðin frá því að þessi ríkisstjórn tók til starfa. Þannig að okkur veitir ekkert af sterku Alþingi. Okkur veitir ekkert af sjálfstæðu Alþingi. Okkur veitir ekkert af Alþingi sem hefur virkt aðhald með framkvæmdarvaldinu. Okkur veitir ekkert af Alþingi sem hreyfir við málum sem geta verið óþægileg ef þau varða almenning einhverju. Ég fullyrði að flest þau mál sem hér er spurt um á þingi og í gegnum tíðina hafa verið þess eðlis að allar þær upplýsingar sem óskað er eftir eiga erindi við almenning. Þær eru í þágu almennings, þeir hagsmunir sem fram koma og spurt er um varða hag almennings, varða þjóðarhag, ef maður vill vera spámannlegur.

Að þessu leyti er því ljóst að þó að þetta mál sé ágætt þá er því ekki lokið. Það þarf að verða bragarbót á því hvernig ráðherrar svara fyrirspurnum. Það er nú einhvern veginn þannig, herra forseti, af því að mér leiðist að nota orðið viðurlög, að ef aldrei myndi kvikna í þá myndum við ekki vita til hvers slökkviliðið væri. Það er eins í þessu tilfelli. Við getum orðað það þannig að ef ekki er slegið á handarbakið á mönnum fyrir það að standa sig ekki þá er ekkert víst að menn bæti ráð sitt.

Ég er heldur ekki á því, þó að ég þekki ágætlega til í störfum ráðuneyta og veit að þar er yfirleitt ekki yfirdrifinn mannskapur og vinnuhraðinn er þó nokkuð mikill, að það þurfi að koma til einhverjar stórkostlegar auknar fjárveitingar eða fjölgun á starfsfólki í ráðuneytum svona yfirleitt til að sjá um þennan þátt, þ.e. að svara fyrirspurnum frá Alþingi, ég tel það ekki. Enda væri mönnum í sjálfu sér í lófa lagið að gera sérstaka úttekt á því að leyfa ráðuneytunum að kveða upp úr með það með einhverjum hætti, með könnun eða einhverju slíku, að gefa ráðuneytum og ráðuneytisstjórum kost á því að meta það hversu mikill tími af starfstíma starfsmanna fer í það að svara þingmönnum. Ég held að það væri margt vitlausara í sjálfu sér fyrir ríkisreksturinn yfir höfuð en ef ráðuneyti réðu yfir öflugu verkbókhaldi, og sum gera það kannski nú þegar, ég kannast svo sem ekki alveg við það en það kann vel að vera, þannig að það sé ljóst hvernig tími manna er nýttur og í hvað hann fer í hverju ráðuneyti fyrir sig. Það væri náttúrlega bara til gagns fyrir þá sem starfa í ráðuneytunum, þeim sem stjórna þeim o.s.frv. Þá væri líka spurning um það að menn gætu jafnvel breytt áherslum og tekið ákvarðanir í framhaldi af því.

Það hefur líka verið sagt út af þessum fyrirspurnamálum að rétt væri fyrir þingmenn að nýta þann rétt sem þeir hafa til að koma með óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Og menn nýta sér það augljóslega vel. En það verður að segjast eins og er, og mér finnst einhvern veginn núna, það er kannski bara tilfinning, að síðasta árið sérstaklega hafi svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma orðið fátæklegri. Kannski er ég að gelta að röngu tré, það kann vel að vera, en mér finnst einhvern veginn að sérstaklega síðastliðið ár höfum við oft og tíðum komið að tómum kofanum hjá ráðherrum. Það er spurt út í atriði sem maður hefði haldið að þeir ættu að hafa svona nokkurn veginn á hreinu, en svörin hafa verið alveg ótrúlega fátækleg í sumum tilfellum. Ég ætla ekki að fara yfir þau dæmi hér en mun væntanlega gera grein fyrir þeim á öðrum vettvangi.

Herra forseti. Að þessu sögðu vænti ég þess að ég muni jafnvel samþykkja þetta mál eins og það liggur fyrir. Ég er ánægður með það að nefndin skyldi hætta við að framlengja enn frestinn, í þetta skipti upp í 25 ár, vegna þess að mér hefði ekki þótt góð latína þar sem fresturinn hafði verið aukin fyrir um tíu árum að við værum að lengja frest ráðherranna á tíu ára fresti til einhverrar framtíðar. Mér finnst það ekki góð latína. Það er eins og að auka hámarkshraða ef menn keyra of hratt eða að auka við prómillin ef menn vilja aka undir áhrifum, svo ég taki tvö absúrd dæmi.

En þetta mál eins og það er nú búið kallar á meiri vinnu, kallar á frekari úttektir, kallar á frekari rannsóknir á því hvernig ráðuneytin eru í stakk búin til að svara, að menn viti betur í hvað tími ráðuneytisstarfsmanna fer. En vonandi verður þetta mál samt sem áður, eins og það er lagt hér upp, til að efla Alþingi á endanum, til að efla sjálfstæði Alþingis og sjálfstæðan vilja þess og þeirra þingmanna sem hér sitja, og efla þá í því að spyrja erfiðra spurninga jafnt sem auðveldara og fá svar við spurningum sem varða hag fólksins í landinu. Til þess eru refirnir skornir. Og ef þetta mál verður til að efla það er ekkert nema gott um það að segja.