151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[19:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mjög óttasleginn gagnvart forvirkum rannsóknarheimildum, sér í lagi almennt þeirri tilhneigingu að vilja grípa til svo róttækra úrræða til að leysa vandamálin. Það verða alltaf til ákveðin vandamál í samfélagi okkar þar sem verður ofboðslega, ofboðslega, ofboðslega brýnt að grípa inn í, þar á meðal barnamisnotkun, hryðjuverk og ýmislegt slíkt, þar sem ekkert okkar vill nokkurn tímann sjá nokkurt brot eiga sér stað nokkurn tímann. En á sama tíma þá búum við líka í frjálslyndu lýðræðisríki og ættum ekkert frekar að vilja búa í einhvers konar öðruvísi ríki. Forvirkar rannsóknarheimildir og sambærilegar leiðir til þess að búa til hliðarleiðir fram hjá getu borgarans til að verja réttindi sín draga um of úr þessum frjálslyndu lýðræðisgildum að mínu mati. Og þess vegna er ég á móti því. Ég skil alveg ákallið eftir þeim. En það er alltaf til staðar og verður alltaf til staðar og alltaf — alltaf þegar yfirvöld vilja ganga of langt, sem ég er ekki að segja að þessi yfirvöld vilji gera, en alltaf þegar þau vilja gera það, hvort sem það er í Hvíta-Rússlandi eða Póllandi eða Ungverjalandi eða í Bandaríkjunum eða hvar sem er, þá er það vegna öryggis almennings. Það er alltaf öryggissjónarmiðið sem ber hæst. Stundum eru búin til vandamál og stundum er gert of mikið úr vandamálum sem eru ekki jafnstór og af er látið og stundum eru þau mistúlkuð þannig að einhverjum heilbrigðisvandamálum eins og vímuefnafíkn er breytt í glæpavandamál til að réttlæta allt eftirlits- og njósnabatteríið sem fylgir og hefur fylgt. En þetta er ákveðið vegasalt sem ég held að verði aldrei til nein algjör lausn á. Mér finnst alla vega fyrsta skrefið alltaf vera að fjármagna og þjálfa nógu mikið, alla vega að komast á þann stað fyrst, það finnst mér vera lykilatriði. Það ættum við öll að vera sammála um og ættum að geta komist þangað og síðan mun ég glaður halda áfram þeirri rökræðu við hv. þingmann.