151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Barna- og fjölskyldustofa.

355. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir andsvarið. Ég tek undir áhyggjur hans með biðlistana. Það eru biðlistar í dag og svoleiðis á kerfið ekki að virka. Þess vegna erum við að reyna að gera hér breytingar sem munu vonandi leiða af sér að biðlistar hverfi til framtíðar og þess vegna erum við svo áfram um að koma þessu sem fyrst af stað, bæði innleiðingunni og því að kerfið fari að virka eins fljótt og mögulegt er því að það heggur fljótt á þessa biðlista.

Ég sá í fjármálaáætlun núna, þegar ég fór að glugga í hana, að gert er ráð fyrir fjármagni til að reyna að stytta biðlistana, t.d. hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni, og ég vona svo sannarlega að ekki verði eins mikil þörf og þá vonandi styttast þessir biðlistar.

Hvað það varðar hvort þetta frumvarp um Barna- og fjölskyldustofu sé fullfjármagnað þá geri ég ráð fyrir því og það fóru fram gríðarlega viðamiklar kostnaðargreiningar á samþættingunni allri sem þetta frumvarp leiðir af sér. Ég nefni t.d. kostnaðargreiningu frá Haraldi Líndal og fleirum. Við höfum fengið fyrir nefndina upplýsingar um þetta og mér er sagt að þetta sé fullfjármagnað og ég var að glugga í þetta í fjármálaáætluninni áðan og sé að þetta er fjármagnað í innleiðingarferlinu. Við vonum að þetta fari fljótt að segja til sín, að þetta verði kostnaðarminna fyrir kerfið allt þegar þetta fer að virka.