151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Barna- og fjölskyldustofa.

355. mál
[18:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og sýn hans á reynsluna við kerfið í sambandi við baráttu fyrir öryrkjum. En eins og hefur komið fram í ræðum hérna í dag verður þetta mál kallað inn til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr., og ég heyrði að þingmaðurinn gladdist yfir því og það gerum við öll, þannig að hægt verði að koma einhvers konar skikki á þessi mál sem hefur verið fundað um hér í dag.

En eitt er það sem ég hef áhyggjur af að verði erfitt að lagfæra. Það er að það er ekki skýrt hvernig fjármögnun á að eiga sér stað eða það vantar þann texta inn í fjármálaáætlun fram í tímann. Í því ljósi langar mig að spyrja þingmanninn: Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af þessu líka, að málið fái þar af leiðandi ekki framgang vegna þess að þetta liggur ekki skýrt fyrir í fjármálaáætlun inn í framtíðina? Því að það eru mjög strangar reglur sem eru í kringum lög um opinber fjármál. Fjármálaáætlun var sett á þegar þau lög voru samþykkt 2015 þannig að það hlýtur að þurfa að vera búið að tryggja fjármögnun fram í tímann þegar svona stórt og mikilvægt mál verður að lögum. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því líkt og sá sem hér stendur hefur?