151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[20:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við erum farin að ræða hér hinar ólíku tegundir félagasamtaka, skáta og skáksambönd, íþróttafélög og bandíklúbba og hvað það nú allt heitir, þá dettur mér í hug hvort lögin séu kannski of smásmuguleg, hvort aðgerðir hefðu átt að vera almennara eðlis, einmitt minnugur þess að í upphafi faraldurs sagði fjármálaráðherra að nú yrði gert meira frekar en minna og krafti ríkissjóðs beitt af fullu afli, hvort lög af þessu tagi ættu kannski að ná til almannaheillafélaga almennt sem ná yfir íþróttafélög og ýmiss konar önnur félög sem lenda sum væntanlega ekkert í rekstrarörðugleikum og þurfa þar af leiðandi ekki að leita til ríkisins en önnur gætu alveg lent í því þó að þau séu ekki íþróttafélög.

Svo er eitt sem mig langar að minnast á vegna þess að hv. þingmaður nefndi alla kostina sem þetta skipulega félagsstarf hefur fyrir einstaklingana sem taka þátt í því. Þá má líka nefna, þó að það sé kannski ekki jafn rómantískt, að þessi starfsemi getur haft grjóthörð, jákvæð efnahagsleg áhrif. Það var nú bara í síðasta mánuði sem haldið var rafíþróttamót í Laugardalshöll þar sem í kringum 400 manns mættu til að keppa í því sem heitir, með leyfi forseta, „League of Legends“. Þetta voru ferðamenn sem höfðu með sér mikinn gjaldeyri, mikil umsvif inn í efnahagslífið á tímum (Forseti hringir.) þar sem þess er aldeilis þörf. Þetta er íþrótt sem er meira að segja bara rétt að byrja.