151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[20:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson fór ágætlega yfir þróunina í pólitíkinni og m.a. hjá sínum flokki, Sjálfstæðisflokknum, hvað varðar frelsi og traust ríkisvaldsins á almenningi, fólki. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að í þessu máli, í rökstuðningi fyrir því, birtist tilhneiging sem mér hefur þótt nokkuð áberandi og sérstaklega síðustu misserin, að menn í pólitíkinni tali með einum hætti en framkvæmi svo eitthvað allt annað.

Ég ímynda mér það, herra forseti, ég veit það reyndar en skal láta nægja að segja að ég ímyndi mér það, að hv. þingmaður sé sammála mér um þetta vandamál. En hvað er til ráða? Auðvitað er það helst til ráða að menn finni ræturnar eins og ég var að hvetja hv. þingmann til hér áðan og trúi eigin boðskap, t.d. þegar talað er um mikilvægi frelsis og mikilvægi þess að gefa fólki tækifæri. Það er endalaust hægt að finna einhver rök fyrir því að fólk eða fyrirtæki geti farið sér að voða ef ríkið passar ekki upp á hvers konar samningar eru gerðir, hvað sé leyfilegt og hvað ekki.

Í því máli sem við ræðum hér finnst mér þetta í rauninni sérstaklega áberandi vegna þess að það vandamál er þegar til staðar, án inngrips ríkisins, að tekjulægra fólk eigi erfitt með að fá lán þrátt fyrir, eins og við höfum rætt hér, að það þurfi jafnvel að greiða meira í hverjum mánuði í leigu en myndi kosta það að byggja upp eign í fasteign. Maður á því erfitt með að sjá þörfina fyrir að ríkið grípi inn í og ætli að fara að ráðskast með hvers konar samninga fólk og fjármálafyrirtæki gera sín á milli. Eflaust er það rétt, sem hv. þingmaður segir, að þetta tengist að einhverju leyti fjármálahruninu, bankahruninu — eru ekki komin 12 ár síðan, jafnvel meira? — og þetta sé einhver arfleifð af því. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér hversu lengi við ætlum að vera föst í viðjum þeirrar arfleifðar. En það er hins vegar alveg rétt að á þeim tíma fóru sum fjármálafyrirtæki of geyst og lánuðu langt umfram það sem fólk, ekki hvað síst í Bandaríkjunum, fátækt fólk í Bandaríkjunum, gat borgað. En hvað er rétt að gera þegar fyrirtæki haga sér með svo óábyrgum hætti? Er þá ekki bara rétt að þau beri hallann af því að hafa farið óvarlega? Það er auðvitað það sem við leituðumst við að gera hér á Íslandi með því að láta skattgreiðendur ekki bera ábyrgð á óvarfærinni hegðun fjármálafyrirtækja. Er það ekki besta leiðin að láta fyrirtæki rétt eins og almenning taka ábyrgð á gjörðum sínum?

Ég hvet hv. framsögumann þessa máls, hinn geysiöfluga hv. þm. Brynjar Níelsson, til að velta því fyrir sér hvort við ættum ekki að breyta þessu máli eitthvað í nefndinni. Við höfum ekkert rætt þetta mjög mikið í nefndinni frekar en mörg önnur flókin mál. Það streyma inn í þessa nefnd okkar á færibandi einhver kerfismál sem ég held að enginn þingmaður skilji og samstarfsmenn okkar hér í þinginu mega hafa sig alla við að setja sig inn í fyrir okkur. En það er ekki góð þróun. Það hefur verið talið ákveðið grundvallaratriði í lagasetningu, eða var það hér áður fyrr á einfaldari tímum, ef svo má segja, en kannski líka tímum meiri skynsemishyggju að ýmsu leyti, að lög ættu að vera skiljanleg, að allur almenningur ætti að geta skilið hvað væri leyfilegt og hvað væri bannað. En nú erum við að afgreiða hér af færibandinu endalausa pakka af óskiljanlegum lögum, óskiljanlegum fyrir þingmennina sem eru að setja þessi lög, hvað þá fyrir almenning sem vinnur ekki við að setja sig inn í þau. Þetta er óheillaþróun.

Það mál sem við ræðum akkúrat núna er þó tiltölulega skiljanlegt, finnst mér, og krefst kannski ekki langrar umræðu. Mér finnst eiginlega liggja nokkuð ljóst fyrir að þetta sé óþarfi, að það sé óþarfi að ríkið ákveði hvers konar samninga fólk geti gert við lánastofnanir. Það ætti frekar að setja lög sem auka möguleika tekjulægra fólks á Íslandi á því að eignast sitt eigið húsnæði og líka bíl eða bíla þó að núverandi ríkisstjórn virðist vera mjög í nöp við alla umferð fjölskyldubílsins.