151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:41]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Ég tel að þetta mál sé mjög þarft og gott og mjög til þess vandað. Við erum að ræða þetta í sama vetfangi og þjóðin er að vakna upp við að hún býr við það sem mætti kalla breyttan veruleika í sínu landi. Við fáum fréttir af hörmulegum atburði í borginni og lögregla greinir frá átökum skipulagðra brotahópa. Lögreglan tjáir okkur í fréttum að þeir séu kannski 15 talsins, hugsanlega eitthvað breytilegur fjöldi. Lögreglan segir okkur að það séu kannski 30 manns starfandi við brotaiðju í hverjum hóp. Lögreglan upplýsir okkur um það í sínum skýrslum að Ísland geti verið áfangastaður fyrir aðila sem fremja mansalsbrot.

Frú forseti. Það er rakið í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu að baráttan gegn mansali sé sameiginlegt verkefni ríkja heims og þar er sérstaklega vitnað til samþykktar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hinn 15. nóvember 2000 á samningi gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og er vísað til samningsins sem Palermó-samningsins. Þennan sama dag samþykkti allsherjarþingið sérstaka bókun við samninginn um að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna. Talað er um Palermó-bókunina í því sambandi. Rakið er að í samningnum séu settar fram grundvallarráðstafanir sem nauðsynlegar eru til forvarna í baráttu við alþjóðlega skipulega glæpastarfsemi og í bókuninni eru útfærðar sérstakar ráðstafanir í baráttunni gegn mansali.

Eins og hér hefur komið fram, til að mynda í ræðu síðasta hv. ræðumanns, þá voru íslensk stjórnvöld ekki bráðfljót að fullgilda samninginn og bókunina. Af hálfu íslenskra stjórnvalda voru samningurinn og bókunin undirrituð í desember 2000 en voru ekki fullgilt fyrr en tíu árum síðar, árið 2010. Rakið er í greinargerðinni með hvaða hætti unnið er að baráttu gegn mansali á vettvangi Evrópuráðsins. Þar er rakin gerð samnings um aðgerðir gegn mansali sem var lagður fram 2005 og tók gildi 2008. Þessi Evrópuráðssamningur styðst við Palermó-bókunina. Í greinargerðinni sem við höfum fyrir framan okkur segir að hann sé mun ítarlegri og gildi um mansal innan lands sem og fjölþjóðlegt mansal. Enn fremur segir að hann gildi jafnframt óháð því hvort skipulögð brotasamtök standi að baki mansali eða ekki. Í greinargerðinni segir að Palermó-bókunin gildi aftur á móti eingöngu um mansal sem á sér stað milli landa fyrir tilstilli skipulagðra brotasamtaka.

Við fræðumst um það í greinargerðinni að Evrópuráðssamningurinn hafi að geyma ákvæði um allnokkur atriði sem ekki er að finna í Palermó-bókuninni, eins og ákvæði um vitna- og upplýsingavernd og ákvæði um refsiábyrgð lögaðila. Greint er frá því sömuleiðis að íslensk stjórnvöld fullgiltu Evrópuráðssamninginn í febrúar 2012. Sömuleiðis er dregið saman í greinargerðinni hverjar hafa verið aðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn mansali og rifjað er upp að íslensk stjórnvöld kynntu fyrstu heildstæðu aðgerðaáætlunina gegn mansali í mars 2009 og hún gilti til ársloka 2012. Síðan kynntu stjórnvöld aðra slíka aðgerðaáætlun og hún gilti til ársloka 2016.

Síðan er rakið að dómsmálaráðherra hafi kynnt áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu í mars 2019. Segir í greinargerðinni að mælt hafi verið fyrir um margvíslegar aðgerðir sem lúta í fyrsta lagi að forvörnum, í öðru lagi að vernd brotaþola, í þriðja lagi að rannsókn og saksókn vegna mansals og í fjórða lagi að samstarfi og samráði innan lands og á alþjóðavettvangi á þessu sviði. Þá segir jafnframt að ein aðgerðin sem kynnt var í mars 2019 beinist sérstaklega að endurskoðun laga, reglna og stjórnvaldsfyrirmæla á sviði mansals og segir að þetta frumvarp sé liður í þeirri vinnu.

Það er auðvitað ágætt, frú forseti, að verið sé að styrkja lagagrundvöllinn eins og hér er leitast við að gera með þessu þarfa og góða frumvarpi.

Sömuleiðis er rakið í greinargerðinni, og er mjög upplýsandi, að starfandi sé sérstakur sérfræðingahópur á vegum Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Þessi sérfræðingahópur er einkenndur með skammstöfuninni GRETA. Starfshópurinn hefur sótt Ísland heim í tvígang í samræmi við hlutverk sitt, að hafa eftirlit með því hvort aðildarríki að samningnum uppfylli skyldur sínar samkvæmt samningnum á fullnægjandi hátt. Fram kemur að birtar hafi verið tvær skýrslur af hálfu þessa sérfræðingahóps og er sérstaklega vitnað til ábendinga eða öllu heldur gagnrýni á skipan mála hér. Segir í greinargerðinni að gagnrýnin hafi falist í því að ekki skuli vera kveðið á um nauðungarhjónaband, þvingað betl eða þvinguð afbrot í íslenskri löggjöf um mansal. Segir í framhaldinu að tekið sé mið af þessum ábendingum sérfræðingahópsins, sem kallaður er GRETA í þessu frumvarpi, og er gott til þess að vita.

Í greinargerðinni er vísað með allítarlegum hætti til viðvarana og ábendinga lögreglu, ekki síst með vísan til skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem dagsett er í maí 2019. Í greinargerð segir að þar komi fram að margt bendi til að skipulagt vændi hafi aukist hér á landi og að hluti þess tengist erlendum skipulögðum brotahópum. Með leyfi forseta segir í framhaldinu:

„Þá séu vísbendingar um að Ísland sé áfangastaður fyrir mansal og þá einkum vinnumansal innan byggingariðnaðar, veitingareksturs og ferðaþjónustu. Einnig séu vísbendingar um að erlendir ríkisborgarar hafi verið fluttir til landsins með skipulögðum hætti til að sæta mansali og misneytingu.“

Þetta eru mjög sterk orð, frú forseti; erlendir ríkisborgarar fluttir til landsins með skipulögðum hætti til að sæta mansali og misneytingu.

Í greinargerðinni segir síðan að í tilvitnaðri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem er dagsett í maí 2019, sé dregið fram að — og þetta er bein tilvísun, með leyfi forseta:

„ … mikil fjölgun hælisleitenda auki hættuna á mansali þar sem bág félagsleg staða þeirra geri þá útsetta fyrir misneytingu og kúgun.“

Sömuleiðis segir að þegar litið sé yfir skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem eru nokkrar og er vitnað til þeirra með ítarlegri hætti en ég hef tækifæri til að gera hér, megi sjá að fram til ársins 2015 hafi einkum verið horft til mansals í tengslum við vændi og kynlífsþjónustu, en frá og með árinu 2015, sem er þá einhvers konar vendiár í þessum efnum, verði sú breyting að farið sé að horfa til fleiri birtingarmynda mansals eins og vinnumansals, sérstaklega innan byggingariðnaðar, veitingareksturs og ferðaþjónustu, eins og áður segir. Þarna bætist við: „ … og burðardýra í fíkniefnamálum.“

Það er ýmislegt sem hefur verið gert. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar fyrir lögreglu um verklag í mansalsmálum. Í greinargerðinni er rakið að ríkislögreglustjóri hafi árið 2010 fyrst gefið út rit undir yfirskriftinni Mansal – Upplýsingar og leiðbeiningar um verklag fyrir lögreglu. Það bæri að hafa til hliðsjónar við rannsókn mansalsmála. Þessar leiðbeiningar hafa verið uppfærðar, það var gert árið 2020, og gerðar enn þá ítarlegri og nákvæmari. Segir að þetta sé til vitnis um aukna áherslu á þennan bótaflokk innan lögreglunnar. Síðan er fjallað um beitingu mansalsákvæðisins í framkvæmd og áhugavert væri að fara yfir það. Ég ætla því að sjá til, frú forseti, hvort ég þurfi ekki að koma aftur í seinni ræðu til að fjalla um það efni.