151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Það er þakkarvert að þetta frumvarp skuli vera komið fram, til þess að styðja við brotaþola í mansalsmálum og skýra og skerpa á orðalagi sem orðið getur til þess að koma lögum yfir þá sem stunda slíkt. Mig langar í þessari ræðu að vitna nokkrum sinnum í BA-ritgerð í mannfræði frá 2012 eftir Stefán Veigar Stefánsson. Þegar rætt er um skilgreiningar á mansali þá segir hér, með leyfi forseta:

„Ýmsum aðferðum er beitt þegar kemur að því að flytja fólk með óreglulegum hætti á milli landa eða svæða. Fólki er lofað betri vinnu á nýjum stað, lofað betra lífi og það flutt á fölskum forsendum. Í sumum tilfellum og á sumum áfangastöðum er fjárhagslega hagkvæmara fyrir fyrirtæki að fá ólöglega innflytjendur í vinnu en ófaglært fólk eða fólk með takmarkaða menntun sem oft er á höttunum eftir vinnu sem krefst ekki sérstakrar menntunar.“

Eitt af því sem hvetur til mansals er klámvæðingin. Komið hefur í ljós, eins og alkunna er, að með tilkomu internetsins jókst aðgengi að klámi mjög. Það vill svo til, eins og allir vita, að eftir því sem aðgengið eykst, eftir því sem framboðið eykst, þá verður klámefni sífellt grófara og felst m.a. í miklu meiri niðurlægingu á þeim sem verða fyrir brotum, þ.e. sérstaklega konum og börnum. Í þessari ritgerð segir, með leyfi forseta:

„En með öllum sínum kostum má einnig finna fjölmarga ókosti við internetið. Einn af þeim ókostum er klám. Klám getur birst á ýmsan hátt og er misjafnt hvað fólk telur klám og hvað ekki. Í bæklingnum Klámvæðing er kynferðisleg áreitni (mars 2012) er klám skilgreint sem „kynferðislega opinskátt efni í orðum eða myndum með skýra yfir- og undirskipun“ og klámvæðing sem menningarferli þar sem klám smeygir sér inn í daglegt líf okkar sem samþykkt og jafnvel dáð menningarlegt fyrirbæri.“ Hér er vitnað í rannsókn frá 2012.

Síðan segir:

„Ofbeldi hefur aukist í klámi og það er farið að snúast meira um að niðurlægja þátttakendur. Á internetinu er einnig að finna gríðarlegt magn auglýsinga frá fyrirtækjum sem bjóða upp á ýmiss konar kynlífs- og fylgdarþjónustu […]. Það sem einkennir notkun internetsins við öflun á klámefni er nafnleysið, en á þeim síðum sem bjóða upp á slíkt efni er þess yfirleitt ekki krafist að fólk skrái sig inn undir réttu nafni.“

Mansal, sem oft hefur verið líkt við nútíma þrælahald, er núna þriðja ábatasamasta smyglleiðin í heimi á eftir vopnasölu og fíkniefnasölu. Þess vegna er mansal í sjálfu sér þaulskipulagt, skipulagt af glæpahópum. Í þessari ágætu ritgerð sem ég hef verið að vitna til segir að oft og tíðum sé fólk blekkt til ferðalags yfir landamæri með loforði um að þess bíði betra líf handan landamæranna. Oft greiðir sá sem fluttur er sjálfur fyrir farið, ellegar greiðir glæpamaðurinn eða glæpasamtökin, sem flytja viðkomandi á milli landa, kostnaðinn fyrir hann en innheimta hann síðar.

Það var ekki fyrr en 2002 sem mansal kom fyrst fyrir í opinberri umræðu á Íslandi. Ég sagði það hér í ræðu um daginn að það virtist vera þannig, eins og varðandi margt annað sem gerist í heiminum, að Íslendingar vildu oft stinga höfðinu í sandinn og fullyrtu ranglega að slíkt og annað eins fyrirfyndist ekki hér á Íslandi.

En auðvitað er þetta tálsýn, herra forseti, því miður. Í títtnefndri BA-ritgerð segir að þegar verið sé að flytja fólk séu áfangastsaðirnir oft rík lönd þar sem kynlífsiðnaðurinn er stór eða þar sem vændi er annað hvort löglegt eða mikið umburðarlyndi ríkir gagnvart því.

Við erum náttúrlega í þeirri stöðu á Íslandi að það að stunda vændi er ekki ólöglegt, en það að kaupa vændi er ólöglegt. Því miður virðist mansalsmálum hafa fjölgað hér á Íslandi mjög bratt og mjög hratt, ekki síst vegna þess að eftirspurnin eykst, m.a. í kjölfar klámvæðingarinnar sem hér var farið yfir áðan. Það vill þannig til, og þetta vitum við öll sem viljum vita, að þeir sem eru helstu fórnarlömb mansals, t.d. þar sem um er að ræða vændi, eru konur og börn. Það kom fram í fyrra líklega að í kjölfar stríðsátaka sem hafa verið fyrir botni Miðjarðarhafsins eru tugir þúsunda barna nú á vergangi um Evrópu ein síns liðs og eru þess vegna auðveld skotmörk níðinga. Það er náttúrlega mjög alvarleg staða að það skuli ekki vera reynt að gera gangskör að því að sameina fjölskyldur meira eftir þau stríðsátök sem þarna hafa geisað, vegna þess að eins og ávallt þegar átök brjótast út þá eru það konur og börn sem verða fyrstu og flestu fórnarlömbin.

Hér segir í þessari ritgerð, með leyfi forseta:

„Við skilgreiningu á mansali þarf alltaf að taka tillit til aðstæðna fórnarlambsins, en þær eru oftar en ekki slæmar. Þar að auki er sá möguleiki alltaf fyrir hendi að ekki sé brotið á réttindum einstaklings á áfangastað og því er ekki alltaf hægt að tala um mansal.“

Það er ekki einfalt mál að finna þetta út. Hér segir líka, með leyfi forseta:

„Þegar fjallað er um óreglulega fólksflutninga eru þeir oft skilgreindir á tvo ólíka vegu. Í fyrsta lagi þegar fólki er smyglað á milli landa og í öðru lagi þegar fólk er selt mansali milli landa eða innan lands.“

Þarna er um tvær aðferðir að ræða, ef við getum orðað það þannig, til þess að menn geti nýtt sér neyð og illar aðstæður fólks sjálfum sér til hagsbóta og jafnvel til þess að hagnast. Þess vegna er það ekki að ófyrirsynju að þetta frumvarp skuli koma hér fram og ég fagna því. En það er alveg ljóst að við þurfum að vera á verði. Það er eitt sem við verðum að reyna að hamla með einhverju móti, þ.e. að hemja þá klámbylgju sem ríður nú yfir og ekki síst yfir internetið, vegna þess að það er orðið mjög alvarlegt mál þegar heilar kynslóðir ungra manna alast upp við að það sem þeir skoða á netinu, og sumir hverjir mörgum sinnum í viku, sé eitthvað eðlilegt, að kynlíf eigi að vera eins og það birtist í þessum klámmyndum sem menn horfa á á netinu. En því fer svo fjarri. Það er því ekki að ófyrirsynju, herra forseti, að þetta frumvarp er lagt fram. Aukaáhrif af þessari klámbylgju eru að hér á Íslandi er t.d. að fjölga tilfellum þar sem margir einstaklingar koma að, sem sagt: Hópnauðgunum er að fjölga hér mjög, þannig að allt hefur þetta gríðarlega slæm áhrif. Það fer ekki á milli mála að þessir atburðir, hvort sem um er að ræða nauðgunarmál, ég tala nú ekki um hópnauðganir og mansal, eyðileggja líf fórnarlamba til skemmri eða lengri tíma og hafa í versta falli leitt til dauðsfalla fórnarlambanna, oft fyrir eigin hendi. Það er þyngra en tárum taki, herra forseti. Það er því af hinu góða að lögregluyfirvöld og hæstv. dómsmálaráðherra hafa lagt áherslu á að efla þá deild lögreglu hér, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, sem kemur að kynferðisbrotum.

En þá komum við að öðru, herra forseti, sem við Miðflokksmenn höfum lagt mikla áherslu á í hverjum einustu fjárlögum síðustu fjögur ár. Það er að styrkja lögregluna og styrkja eða tryggja öryggi landamæra Íslands, vegna þess á meðan að lögreglan er undirmönnuð, eins og hún er sannarlega nú um stundir hér, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, og úti um allt land reyndar, getur hún ekki starfað sem skyldi. Það kom í ljós að þeir sem sömdu um styttingu vinnuvikunnar á vinnumarkaði, alla vega hjá ríkinu, virðast ekki hafa gert sér nokkra grein fyrir því að stytting vinnuvikunnar myndi kosta í fyrsta lagi fé og í öðru lagi myndi hún kalla á gríðarlega fjölgun í mannafla, sérstaklega þegar vaktavinnufólk á í hlut. Þetta höfum við heyrt núna undanfarið, ákallið frá lögreglunni og frá heilbrigðisstofnunum, að það er þörf á því að ráða töluvert margt fólk. Það stefnir í sums staðar, eins og hjá heilbrigðisstofnunum, varðandi sumarið í sumar að starfsemin verði í miklum ólestri. Það stefnir í óefni. Þannig að til þess að stemma stigu við þessu verðum við, samhliða þessu ágæta frumvarpi, að gera ráðstafanir til þess að varna því að hingað inn í landið flæði fólk sem selt er mansali, hvort sem er í vændi eða vinnumansal, eins og þekkist. Það þarf að vinda bráðan bug að því að tryggja landamæri og tryggja lögreglu og öðrum yfirvöldum, tollgæslu og fleirum, nauðsynlega fjármuni til að stemma stigu við þessu.

Það sem við Miðflokksfólkið höfum verið að færa fram í þessu efni, bæði hvað varðar ólöglega innflytjendur eða hælisleitendur og einnig styrkingu á landamærum, hefur verið kallað hræðsluáróður. Það hefur verið kallað útlendingaóvild. En það er ekkert slíkt í gangi, herra forseti. Það sem verið er að benda á er einfaldlega hvernig hlutirnir eru akkúrat í dag eða hvernig við erum stödd, Íslendingar, í dag hvað þetta varðar og hvað við þurfum að gera til að koma í veg fyrir að hingað flæði inn fólk sem við getum ekki séð sómasamlega fyrir. Það er að við getum ekki styrkt það til að ná sambandi við það þjóðfélag sem við búum í. Þess vegna þurfum við að hafa stjórn á því sjálf hversu margir leita hingað og skipuleggja það eins og aðrar þjóðir eru farnar að gera. En ég sé að tími minn er búinn, herra forseti. Ég er hins vegar hvergi nærri búinn og bið því um að verða settur aftur á mælendaskrá.