151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[20:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var búinn að rekja í stuttu máli umfangsmestu útgjaldaliðina í þessu frumvarpi til fjárauka en þeir snúa að vinnumarkaði og atvinnuleysi. Ég benti hins vegar á og færði rök fyrir því að í ljósi þess að það eru allt tímabundnar aðgerðir, bráðabirgðaaðgerðir til að komast í gegnum ákveðið tímabil, þá vanti upp á að stjórnvöld hafi gefið til kynna hvað taki svo við. Hér er gert ráð fyrir að ráða nokkur þúsund manns með ríkisstuðningi en við þurfum að huga að því hvað tekur við þegar þeim stuðningi lýkur. Helst viljum við auðvitað að sem flest af þessu fólki hafi þá tækifæri til að vera í vinnu hjá þessum fyrirtækjum áfram en einnig þurfum við að koma miklu betur til móts við minni fyrirtæki á Íslandi til að gera þeim kleift að ráða fólk í vinnu að eigin frumkvæði og af sjálfsdáðum. Það er hins vegar mjög margt í kerfinu sem er letjandi hvað það varðar og það ástand hefur verið að versna á þessu kjörtímabili. Eftir að þessum aðgerðum lýkur tekur fyrir vikið við þeim mun meira óvissutímabil. Það er orðin mjög knýjandi þörf fyrir áform, fyrir áætlun um hvað taki við næst. Einn af göllunum á kerfinu, þessu oft og tíðum letjandi frekar en hvetjandi kerfi, hefur að nokkru leyti birst við framkvæmd aðgerða sem ætlað var að mæta faraldrinum, m.a. með ríkisstuðningi við tiltekin störf en erfitt hefur reynst að ráða í mörg störf þrátt fyrir ríkisstyrki. Þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvað veldur. Og með því að velta því fyrir sér er aldeilis ekki verið að kenna atvinnulausum um. Þvert á móti hljótum við að velta því fyrir okkur hvort eitthvað í kerfinu, eins og það hefur verið rekið, valdi því að fólk verði einfaldlega fyrir það miklum skerðingum að þær séu veigameiri en þeir möguleikar sem ríkið skapar með þessum stuðningi við atvinnurekendur. Allt er þetta liður í því sama, þ.e. að ríkið reyni að koma hér á kerfi sem hvetur til verðmætasköpunar, fjárfestingar, atvinnusköpunar í stað þess, eins og það gerir að allt of miklu leyti nú, með öllum þessum síauknu álögum og síþyngra kerfisræði, að letja til atvinnu- og verðmætasköpunar. Þetta er sérstaklega aðkallandi núna þegar við þurfum að byggja okkur upp efnahagslega eftir mjög verulega niðursveiflu. Hvernig náum við að komast í gegnum þetta? Hvernig náum við t.d. að fjármagna það sem við ræðum hér og þennan gríðarlega halla á fjárlögum? Það var með aðgerðaáætlun sem byggði á því hvað væri hægt að gera, hvað væri rökrétt að gera, hvað innihéldi jákvæðustu hvatana, hvað myndi skila mestum árangri, keyrt í gegn í tíð ríkisstjórnar á árunum 2013–2016 á pólitískan hátt. Nú þurfum við aftur pólitíska forystu til að hanna það kerfi og þá hvata sem eru orðnir aðkallandi nú þegar okkar bíður að byggja upp efnahag landsins.