151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

ávana- og fíkniefni.

644. mál
[13:44]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Mig langaði bara að koma hér upp þar sem ég er með fyrirvara á þessu máli. Fyrirvari minn felst í því að ég vil leggja áherslu á að það sem sagt er í frumvarpinu og tekið er fyrir í nefndaráliti meiri hluta er að það verði settar reglugerðir, það sé landbúnaðarráðherra sem setji reglugerð sem kveði á um leyfi til innflutnings á fræjum af tegundinni cannabis sativa, með leyfi forseta, ég kann ekki íslenska orðið á þessu, og þar skuli koma fram nánari skilyrði og takmarkanir á innflutningi, meðferð og vörslu þeirra fræja sem frumvarpið nær til.

Ég vil bara árétta þetta sérstaklega og flestar umsagnir sem komu eða bárust vegna þessa frumvarps voru jákvæðar og það er einmitt tekið fram að málaflokkurinn ætti heima hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ég vil sérstaklega árétta að ég er sammála því. Það er mjög góð umsögn sem kom frá Bændasamtökunum sem tala einmitt í þá átt að það sé landbúnaðarráðherra sem muni fara með eftirlitsskyldu gagnvart því sem verið er að leyfa hér. Og mér finnst alveg sjálfsagt að það skref verði stigið að við getum nýtt hér hamp frekar. Talinn er upp í þeirra umsögn fjöldinn allur af efnum sem hægt er að búa til úr hampi og mér finnst þetta bara mjög gott mál, svo framarlega sem við sjáum til þess að hlutirnir verði í lagi og staðið verði við þessa reglugerð sem ég nefndi hér fyrst.