151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[15:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta mál hefur vakið gríðarlega mikil viðbrögð og ekki að ástæðulausu. Með því var lagt til að stór hluti landsins yrði tekinn undan lýðræðislegri stjórn. Það var gert ráð fyrir að loka stórum hluta landsins að meira eða minna leyti fyrir Íslendingum, að setja takmörk og hindranir á það með hvaða hætti landsmenn gætu notið hins merka hálendis Íslands.

Íslendingar bera þegar nánast allir sem einn mikla virðingu fyrir hálendinu og telja það skyldu sína að fara vel með landið og það hafa menn gert. En með frumvarpinu um stofnun hálendisþjóðgarðs var gefið til kynna að fólki væri ekki treystandi til að stýra því hvernig farið væri með þetta land á lýðræðislegan hátt, jafnvel ekki treystandi til að fara um það á eigin vegum og nýta án leyfis.

Með þessu frumvarpi hefði verið komið í veg fyrir framleiðslu og flutning hreinnar umhverfisvænnar endurnýjanlegrar orku og varla væri það gott fyrir heiminn varðandi þau markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. En hvað með aðra hluta Íslands, þá hluta sem falla utan þjóðgarðsins? Eru þeir ekki nógu merkilegir, á að flytja alla orkuframleiðslu þangað? Eða á einfaldlega að segja þetta gott af framleiðslu umhverfisvænnar orku á Íslandi og segja: Við ætlum ekki að gera meira fyrir heiminn í þeim efnum? Langflestir þekktustu og fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins, hvort sem litið er til erlendra eða innlendra ferðamanna, eru utan hálendisins, á að færa allt álagið þangað? Við þurfum að vernda allt landið eins og kostur er en við breytum því ekki öllu í þjóðgarð. Þess vegna veljum við ákveðna staði og skilgreinum á skýran hátt með hvaða hætti við ætlum að vernda þá staði og hvers vegna. Berum t.d. saman Mývatnssveit og melana sunnan Langjökuls, hvort landsvæðið er fegurra. Eflaust greinir menn á um það, en Mývatnssveit er þó með einstaka náttúrufegurð á heimsmælikvarða og ég er þeirrar skoðunar að auðir melar, þar sem uppfok er stöðugt vandamál sunnan Langjökuls, geti vart keppt við Mývatnssveit en engu að síður höfum við ekki gert Mývatnssveit alla að þjóðgarði.

Sunnan Langjökuls er tækifæri til að virkja á umhverfisvænan hátt með svokallaðri Hagavatnsvirkjun. Sú virkjun er ekki aðeins umhverfisvæn hvað varðar uppruna orkunnar sem endurnýjanlegrar orku heldur væri það beinlínis til bóta fyrir umhverfið að mynda þar lón, enda væri með því verið að endurheimta náttúrulegt ástand, nær því sem var þar til í hamförum á síðustu öld þegar gróður hvarf að miklu leyti með þeim afleiðingum að þar hefur verið sífelldur uppblástur sem nær langt niður í sveitir Suðurlands síðan. Því skyldum við vilja banna þá framkvæmd en ekki veita t.d. Mývatnssveit sömu skilgreiningu?

Í Mývatnssveit er reyndar fólk. Þar býr fólk og stundar atvinnu og þangað koma ferðamenn en það virðist vera að fólk sé nánast þyrnir í augum margra þeirra sem nú á tíð kalla sig umhverfisverndarsinna. Því er ég algerlega ósammála. Maðurinn á sinn þátt í náttúrunni og ekki bara það, hann gefur náttúrunni og landslaginu meira gildi. Við þurfum því að vernda landið allt, afmarka jú ákveðin svæði til að vernda hvert svæði á sinn hátt en ekki að taka stóran hluta Íslands undan lýðræðislegri stjórn og breyta í kerfislægt og miðstýrt apparat sem er að miklu leyti lokað fyrir landsmönnum. Maðurinn er hluti af náttúrunni þótt nýaldarviðhorf í stjórnmálum líti stundum nánast á hann sem aðskotahlut, eitthvað sem sé til vandræða og eigi ekki heima þar.

Af slíkum viðhorfum leiðir þetta frumvarp um kalda kerfisvæðingu hálendisins þar sem lýðræðislegar skoðanir eiga ekki lengur að hafa stjórn, enda sjáum við nú viðhorfið birtast í því hvernig þetta mál var undirbúið. Það var ekki undirbúið á lýðræðislegan hátt þótt annað hafi verið gefið til kynna. Hvernig var kynningarferlið þegar hæstv. umhverfisráðherra fór um landið og kynnti hugmyndir sínar og fékk mikla gagnrýni fyrir, ótal ábendingar um hvað ekki var í lagi við málið, leiðréttingar jafnvel á málflutningi sínum? Hver voru viðbrögðin? Hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin sögðust bara vera ósammála og þar með var það útrætt. Það stóð ekki til að vinna með ólík sjónarmið eins og við heyrum suma þingmenn meiri hlutans fullyrða núna eftir að þeir hafa áttað sig á því að málið er tapað. Það stóð aldrei til að vinna með ólík sjónarmið, bara lík sjónarmið, þau sjónarmið sem féllu að stefnu ríkisstjórnarinnar um stofnun hálendisþjóðgarðs eins og hún hafði verið undirbúin af hinni svokölluðu þverpólitísku nefnd þar sem allir voru sammála nema fulltrúi Miðflokksins sem sagði sig frá vinnunni svoleiðis að sú vinna sem hefur farið fram við undirbúning þessa frumvarps fram að þessu boðar ekki gott um framhaldið nú þegar lagt er til að málinu verði vísað aftur til ráðherra til þess að það geti svo komið aftur inn á þingið sem fyrst eftir kosningar, sama mál, byggt á sömu forsendum.

Höfum það hugfast að ekki aðeins samþykktu fulltrúar allra flokka nema Miðflokksins í þverpólitísku undirbúningsnefndinni þetta mál, ríkisstjórnin samþykkti málið og þingflokkar allra stjórnarflokka samþykktu málið. Það var ekki fyrr en við, þingmenn Miðflokksins, spyrntum við fæti og umræða hófst um innihald en ekki umbúðir að menn fóru að efast. En hvers vegna efuðust þeir? Þeir efuðust fyrst og fremst vegna þess að þeir voru hræddir um að verða refsað í kosningunum. Við höfum heyrt þetta viðhorf frá nokkrum hv. þingmönnum stjórnarliðsins þegar við þingmenn Miðflokksins erum að ræða eitthvert mál. Þá finnst þeim aðallega skipta máli hvort þeir telji að málið sé líklegt til vinsælda eða ekki. Það virðist ekki hvarfla að þessu fólki að til séu flokkar sem standa fyrir það sem þeir raunverulega trúa á eða standa fyrir raunverulegt innihald mála og það að skoða hver raunveruleg áhrif þeirra eru.

Það var því vegna baráttu Miðflokksins sem leiddi til umræðu um innihald málsins að fulltrúar meiri hlutans fóru að óttast að þeim yrði refsað fyrir það sem þeir hefðu ætlað að gera, ekki vegna þess að þeir hefðu séð að sér með áform um hálendisþjóðgarð. Nú kynna þeir áform um að halda áfram þar sem frá var horfið, þeir þurfi bara smáhlé á meðan farið er í kosningar til að þurfa ekki að standa reikningsskil á málinu gagnvart kjósendum eða að reyna að lágmarka það, vonast til þess að kjósendur gleymi þessu. En að loknum kosningum ætla þeir að halda áfram með málið á þann hátt sem lagt var upp með. Þeir ætlast til að vera kosnir án þess að litið sé til þess hverju þeir hafa staðið fyrir og hverjar raunverulegar skoðanir þeirra eru.

Herra forseti. Það er ótal margt í þessu máli sem vekur áhyggjur á mjög mörgum sviðum, enda birtist það í óvenjumiklum fjölda umsagna um þetta mál, mjög fjölbreytilegra umsagna þar sem yfirgnæfandi meiri hluti er neikvæður og bendir á hina ýmsu galla þessa máls. Það er ekki einu sinni svo að ef þetta mál hefði verið samþykkt þá væri því lokið og menn vissu hvað þeir hefðu. Það stóð til að undirbúa jarðveginn til að geta gengið lengra, jafnt og þétt gengið lengra án þess að almenningur ætti að hafa tækifæri til að segja sína skoðun, hvað þá að kjósa um framvinduna. Þetta átti að gera t.d. með því að fela umhverfisráðherra nánast alræðisvald yfir þróun og vexti þessa þjóðgarðs, með því að fela ráðherranum reglugerðarvald til að stækka þjóðgarðinn ef hann vildi, friðlýsa önnur svæði, breyta forsendunum á einn eða annan hátt, loka enn þá meira, loka alveg. Það átti að tryggja að tannhjól kerfisins gætu haldið áfram án þess að þurfa að verða fyrir lýðræðislegri truflun og við vitum hvert hefði stefnt, á hvaða braut menn hefðu verið komnir og hvert kerfið hefði leitt þetta. Þar hefði maðurinn og staða hans í náttúrunni, staða okkar Íslendinga gagnvart okkar eigin náttúru, geta okkar til að njóta eigin náttúru, ekki verið aðalatriðið.

Þetta mál kom fram þegar enn eru óleyst fjölmörg mál varðandi rekstur og fyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs. Hefði ekki verið ráð að byrja á því að leysa þau mál áður en menn sneru sér að þessu? Það hefur t.d. komið fram að 80 fjallvegum og vegaslóðum hefur verið lokað í Vatnajökulsþjóðgarði án skýringa eða a.m.k. með mjög takmörkuðum skýringum. Það kom á daginn, það sem sumir kannski óttuðust, þó að valdheimildirnar hafi ekki verið eins miklar og hér er gert ráð fyrir, en í því tilviki þróaðist þetta með þeim hætti að það var reynt að hindra aðkomu mannsins, aðkomu Íslendinga að sinni eigin náttúru. Mennirnir voru ekki velkomnir í þessari náttúru, jafnvel minjar um mennina, um menningararfleifð okkar, hafa verið fjarlægðar, fornir gangnamannakofar og aðrar minjar verið skemmdar eða fjarlægðar af því að það var litið á sem svo að það væri ekki hluti af náttúrunni.

Nú á enn að ganga á lagið með mjög stórstígum hætti og takmarka frelsi Íslendinga til að ferðast um landið sitt. Það er reyndar mjög óljóst hversu víðtækar lokanirnar verða en í ljósi reynslunnar hljótum við að gera ráð fyrir því að menn muni bara halda áfram að færa sig upp á skaftið, a.m.k. er ljóst að það mun þurfa leyfi. Það mun þurfa að fara í gegnum kerfið og láta kerfið velja hverjir megi njóta og með hvaða hætti og að sjálfsögðu verður rukkað fyrir það. Samt var þeim rökum fleygt fram að stofnun hálendisþjóðgarðs myndi auka mjög ásókn ferðamanna í að koma til landsins og sagt fullum fetum á sama tíma og gert var ráð fyrir því að loka landinu í auknum mæli. Við hljótum að geta treyst bændum og öðrum sem nýta landið og ferðamönnum, íslenskum og erlendum, til að nýta hálendið og njóta þess eins og landsmenn hafa gert frá örófi alda, frá landnámi.

Það nefndarálit sem liggur nú til grundvallar umræðunni, útgönguleiðin, flóttaleiðin úr málinu, bindur að sjálfsögðu ekki næstu ríkisstjórn. Það er ekki hægt að skipa ríkisstjórn sem ekki hefur verið kosin enn þá að gera eitthvað með nefndaráliti fyrra þings. Það er því fyrst og fremst og eiginlega eingöngu hægt að líta á þetta nefndarálit og þau áform sem þar er lýst sem stefnuyfirlýsingu og kosningaloforð núverandi meiri hluta nái hann að halda völdum, halda meiri hluta eftir kosningar. Það er þá orðið skjalfest að haldi þessi stjórnarmeirihluti völdum eigi að halda áfram með þetta verkefni og það á þeim forsendum sem kynntar hafa verið. Svo nefna menn hugmyndir um meira samtal og meiri undirbúning en hæstv. umhverfisráðherra var búinn að útskýra það að samtalið hefði allt farið fram, undirbúningurinn hefði allur farið fram. Því er ekki að vænta annars en meira af því sama takist ríkisstjórninni að halda áfram með þetta verkefni, lýðræðislegar skoðanir, viðvaranir, áhyggjur eins og birtust í tugum umsagna sem nefndin fékk, það verður ekkert meira gert með það eftir kosningar, jafnvel minna. Þá verður orðið lengra í næstu kosningar og menn ekki eins áhyggjufullir að mæta kjósendum í bráð.

Við vitum á hverju þetta frumvarp byggist. Við þekkjum forsöguna, skýrsluna sem þverpólitíska nefndin gaf út, fulltrúar allra flokka nema eins, frumvarpið sem ríkisstjórnin samþykkti, sem stjórnarflokkarnir samþykktu og ætluðu að keyra í gegn. Frumvarp sem byggir á lokunum, hömlum, kerfisræði, nánast alræðisvaldi ráðherra til þess að þróa þetta og breyta áfram að vild inn í framtíðina, byggir á þeirri nálgun fyrst og fremst að maðurinn sé aðskotahlutur og eigi ekki mikið erindi inn á stóran hluta landsins.

Við skulum því, herra forseti, gera okkur fulla grein fyrir því að þetta mál verður að stoppa. Núna hefur okkur tekist, þingmönnum Miðflokksins, að stoppa það fram yfir kosningar en meiri hlutinn hefur talað skýrt um að haldi hann sinni stöðu, haldi hann meiri hluta eftir kosningar, þá haldi málið áfram. Sem betur fer hafa kjósendur val. Þeir hafa nú tækifæri til að grípa inn í kosningum og segja hug sinn. Ég treysti því að landsmenn muni vilja verja rétt sinn, verja landið og eigin möguleika, eigin tækifæri til að njóta Íslands.