151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæðum um tilgreinda séreign. Nefndin hefur fjallað mjög mikið um málið og fengið margar umsagnir frá hinum ýmsu lífeyrissjóðum og meira að segja frá félaginu Femínísk fjármál og Tryggingastofnun ríkisins o.s.frv.

Með frumvarpinu, sem lagt er fram í tengslum við lífskjarasamningana, eru lagðar til víðtækar breytingar á lagaumhverfi lífeyrissjóða og m.a. kveðið á um hækkun lágmarksiðgjalds úr 12% í 15,5% af iðgjaldsstofni. Frumvarpið byggist í megindráttum á tillögum starfshóps sem skipaður var 1. mars 2017 og hafði til umfjöllunar tengsl samtryggingar og séreignar.

Frumvarpið sætti umtalsverðri gagnrýni við umfjöllun nefndarinnar sem laut m.a. að því að ónægt samráð hefði verið haft við lífeyrissjóði og aðra hagsmunaaðila við samningu þess, að varhugavert væri að svo viðamiklar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu væru lagðar fram með svo stuttum fyrirvara og að með frumvarpinu ykist flækjustig kerfisins um of, sem flestum þætti nógu flókið fyrir. Jafnframt sættu ýmsar greinar frumvarpsins efnislegri gagnrýni og vísast um það til umsagna sem nefndinni bárust.

Með vísan til þessa leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Hvetur nefndin til að frumvarpið verði rýnt með tilliti til þeirra ábendinga sem fram hafa komið í umsögnum til nefndarinnar og að samráð verði haft við hagaðila um breytingar. Sú vinna verði forgangsmál hjá ráðuneytinu og stefnt verði að framlagningu að nýju á 152. löggjafarþingi.

Undir álitið rita auk mín, sem framsögumanns, Óli Björn Kárason, Jón Steindór Valdimarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Smári McCarthy og Þórarinn Ingi Pétursson.