152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[13:02]
Horfa

Aldursforseti (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir):

Nú verða rædd álit kjörbréfanefndar og tillögur hennar. Þeim hefur nú öllum verið dreift á borð hv. þingmanna. Ég vil geta þess að þeir sem eru fyrstir á mælendaskrá eru þeir sem hafa tekið þátt í störfum kjörbréfanefndar og áheyrnarfulltrúar þar og á vaðið ríður hv. þm. Birgir Ármannsson sem er jafnframt formaður nefndarinnar.

Ég vil einnig geta þess að á eftir mun ég fara munnlega yfir mælendaskrá því að eins og er þá liggur mælendaskrárkerfið niðri þannig að við munum færa það inn handvirkt hverjir vilja setja sig á mælendaskrá. Eftir sem áður er það hin gamalkunna tækni sem gildir að banka í borð og láta vita, eða með þeim hætti sem ákjósanlegt er, ef fólk vill láta setja sig á mælendaskrá.