152. löggjafarþing — 1. fundur,  1. des. 2021.

ávarp forseta.

[13:10]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Ég þakka hæstv. starfsaldursforseta, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, árnaðaróskir í minn garð og alþingismönnum það traust sem þeir sýna mér með því að kjósa mig forseta Alþingis. Ég mun leggja mig allan fram í störfum mínum við að standa undir því trausti og vinna að því sem best í samstarfi við aðra alþingismenn um að sinna þeim störfum sem þjóðin hefur falið okkur. Jafnframt vænti ég góðs samstarfs við hið ágæta starfsfólk Alþingis.

Rúmar níu vikur eru liðnar frá kosningum og þær óvenjulegu aðstæður eru uppi að þingsetningarfundur hefur staðið núna í rúma viku, en slíkar kringumstæður hafa ekki verið uppi síðan um miðja síðustu öld. Ærin störf bíða okkar þingmanna, mál sem þarf að ljúka fyrir árslok. Þar ber auðvitað hæst fjárlagafrumvarp og tengd mál. Ég vonast eftir nánu og góðu samstarfi við formenn þingflokka og formenn stjórnmálaflokkanna um skipulag þingstarfanna á þeim skamma tíma sem eftir lifir af haustþinginu.

Að lyktum þá tek ég undir þau orð starfsaldursforseta að óska þingheimi og þjóð til hamingju með fullveldisdaginn og býð alla alþingismenn velkomna til starfa á 152. löggjafarþingi. Sérstaklega vil ég óska þeim alþingismönnum sem taka nú sæti á Alþingi í fyrsta sinn heilla í þeirra störfum og bið þeim velfarnaðar. Ég óska einnig þeim sem valist hafa til að gegna ráðherraembættum allra heilla og vona að samstarf ríkisstjórnar og Alþingis verði farsælt.