152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[10:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði virkilega að skamma hér alla sundur og saman en ég er nú hætt við það. Ég ætla að taka afsökunarbeiðni hins nýja formanns fjárlaganefndar gilda og þakka henni fyrir það drengilega að koma hingað upp og viðurkenna þessi mistök. Það er, svona til gamans, svipað kannski og við lentum í í gær; að taka við nýju starfi getur verið svolítið snúið en fall er fararheill og ég ætla að vona sem fulltrúi í fjárlaganefnd að þetta eigi bara eftir að verða til góðs. En ásýndin er virkilega vond, því miður, virkilega vond. Eigum við þá ekki bara að reyna að vera svolítið bjartsýn og vona að þetta sé víti til varnaðar og verði ekki endurtekið? Því það er voðalega sérstakt, ég verð að viðurkenna það, að nefndin hafi aldrei komið saman og við höfum ekki fengið tækifæri á því að tilnefna þá aðila sem við hefðum gjarnan viljað fá sem umsagnaraðila fyrir fjárlögin. En þakka þér fyrir, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, að koma hér drengilega og viðurkenna þessi mistök.