152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[10:51]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta byrjar ekki vel og ég hef áhyggjur af þessu starti í því langhlaupi sem eitt kjörtímabil er. Ég tek afsökunarbeiðni nýs formanns fjárlaganefndar gilda en upphaf þessa kjörtímabils og upphaf þingstarfsins hér einkennist af fautaskap. Ég er enn að jafna mig eftir að hafa upplifað hér og fylgst með hvernig meiri hlutinn ákvað að ganga í það að skipa í nefndir og fara alla leið í meirihlutavaldi sínu. Það hefur ekki gerst á hinu háa Alþingi frá því á síðustu öld, forseti.

Ég biðla til nýs forseta Alþingis að sjá til þess að hér verði starfað af fullri virðingu og heilindum í samstarfi meiri hluta og minni hluta og að gætt verði að virðingu Alþingis svo að hún bíði ekki varanlega hnekki vegna upphafs þessa kjörtímabils.