152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[11:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar að setja þetta mál aðeins í Covid-samhengi af því að hér hafa verið færðar fram skýringar, sem reyndar hafa verið hraktar, um að þetta sé hefð. Einu sinni hefur þetta átt sér stað í þessari nefnd, það tengist Covid. Aðrar nefndir fengu slíkt leyfi líka að fengnu samþykki nefndarmanna, að flýta svona fyrir vegna Covid. Nú er staðan sú að í eitt og hálft ár hefur íslensk þjóð búið við verulega skert frelsi; frelsi til athafna, frelsi til starfa, frelsi til ferðalaga o.s.frv. Sumt sett með lögum, annað með reglugerðum. Mér líður illa við tilhugsunina um að breytingar á þessu, hvort sem þær eru til frekari skerðinga í ljósi einhverra aðstæðna eða að sleppa því að aflétta skerðingum, séu teknar á sama hátt og ríkisstjórnin hefur nú verið að vinna, þessa tvo fyrstu þingfundi. Mér finnst það ónotaleg tilfinning að geta ekki treyst því (Forseti hringir.) að mál sem varða hagsmuni almennings séu borin upp á þann hátt sem þeim ber (Forseti hringir.) samkvæmt lögum um þinghald.

(Forseti (BÁ): Enn minnir forseti á að umræðutími í umræðum um fundarstjórn forseta er 1 mínúta en ekki lengri.)

(LE: Þetta er orðin venja.)

(Forseti (BÁ): Nei.)[Hlátur í þingsal.]