152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og verð að segja að það var ýmislegt þar sem kom mér á óvart af því að við erum ekki endilega skoðanasystkin þegar kemur að pólitík, nema kannski þegar kemur að fjáraustri. Flokkur hv. þingmanns talar um Báknið burt og ég hef kímt yfir því, kannski af því að ég lít svo á að þar sé alltaf verið að tala niður alla opinbera þjónustu. En ég hjó eftir því, í upphafi ræðu hv. þingmanns, að hann talaði um þann fjölda starfsmanna Stjórnarráðsins sem nú væri að fara í flutning vegna uppstokkunar á Stjórnarráðinu sem gerð var, að því er virðist, í miklu flaustri á föstudagskvöldi og starfsmennirnir fréttu margir hverjir af því á blaðamannafundi nýrrar ríkisstjórnar á Kjarvalsstöðum á sunnudegi. Mér skilst að veitt sé hálfgerð áfallahjálp í Stjórnarráðinu þessa dagana þar sem fólk er að reyna að átta sig á því hvar það vinnur. Ég fór aðeins að glugga í fjárlögin hvað þetta varðar. Í fjárlagafrumvarpinu, ég komst ekki í gegnum öll ráðuneytin, kemur í ljós að það er 19,8% hækkun í efnahagsráðuneytinu varðandi stjórnsýslu efnahagsmála. Það er 9,7% hækkun í stjórnsýslu sjávarútvegsmála og 42,9% hækkun hjá forsætisráðuneytinu. Stjórnsýsla samgöngumála er með tæplega 10% hækkun milli ára o.s.frv. Það eru, að mér sýnist, tvö ráðuneyti sem skera sig úr. Það er dómsmálaráðuneytið, sem verður óbreytt nema mannréttindamálin eru öll að fara niður í forsætisráðuneyti, og utanríkisráðuneytið sem einnig stendur svo gott sem í stað.

Ég vil spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort þarna séum við kannski einmitt að tala um það sem hann hefur varað við, þ.e. að báknið sé að belgjast út hjá núverandi ríkisstjórn.