152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:21]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni hjartanlega fyrir djúpa og góða og glögga og sanngjarna yfirferð yfir þennan málaflokk. Hann talaði um þetta af mikilli dýpt og það var áhugavert að hlusta á.

Ég hnaut líka um þau orð hæstv. ráðherra hér áðan að það vantaði skilvirkni í kerfið. Ég veit auðvitað að hæstv. ráðherra gekk ekkert illt til en mig langar aðeins að nefna það hér að einmitt þegar við erum að tala um þessi mál hættir okkur alveg svakalega mikið til að tala alltaf um þau út frá kerfi. Við erum alltaf að búa til einhver kerfi og förum að nota orð eins og „skilvirkt“ þegar við ættum kannski frekar að reyna samhliða að setja okkur í spor þess fólks sem hingað leitar, sem flýr heimahaga, ömurlegar aðstæður, og vill búa hér. Við ættum líka að gera svolítið meira af því að velta því ekki bara fyrir okkur hvað þetta allt saman kosti og annað heldur skoða líka að í langflestum tilfellum erum við að taka á móti fólki sem kemur sér vel fyrir hér, auðgar samfélagið, greiðir sína skatta og skyldur og gerir Ísland í raun og veru betra að mínu mati.

Það hefur mikið skort upp á að þetta kerfi sé nógu manneskjulegt, finnst mér. Það er kannski einmitt vegna þess að við tölum gjarnan um það, og þurfum auðvitað að gera það þegar við veltum fyrir okkur lögfræðilegu hliðunum og annað, og nálgumst það yfirleitt sem einhvers konar risavaxið kerfi en gleymum að hugsa um að þarna inni er fólk. Ég held að það væri ágætt að reyna einhvern veginn að ímynda okkur hvað við myndum sjálf vilja, hvað við myndum sjálf gera ef við værum í þessum aðstæðum.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann, af því að hann fór svo vel yfir málin hérna áðan — það stendur í stjórnarsáttmálanum:

„Auka þarf traust og gagnsæi um ákvarðanir útlendingayfirvalda.“ — Það er stefna ríkisstjórnarinnar að gera það.

Og út frá þeirri þekkingu sem þingmaðurinn býr yfir væri forvitnilegt að fá bara stutt svar: Hvernig væri einmitt best að auka traust á kerfinu?