152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þetta er mér líka ansi ofarlega í huga þessa dagana. Staðreyndir málsins eru þær að það var talið aftur í Norðvesturkjördæmi. Af hverju var það? Það var vegna þess að það var mjög lítill atkvæðamunur á milli jöfnunarsæta í Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi. Það var talið í Suðurkjördæmi. Þar stemmdu allar tölur frá fyrri talningu. Þær gerðu það ekki í Norðvesturkjördæmi. Þegar talið er aftur getur tvennt gerst: Það getur stemmt eða ekki stemmt. Varðandi þær tölur sem komu þar upp úr kössunum þá er ástæðan fyrir endurtalningu að það fundust atkvæði í bunkum C-listans. Það var ástæðan fyrir að telja aftur. Atkvæðaseðlar frá öðrum flokkum höfðu slæðst þar inn í — það voru mannleg mistök — m.a. bunka atkvæðanna fyrir Flokk fólksins við flokkun þannig að það var talið aftur. Það eru staðreyndirnar. (Forseti hringir.) Og orsakasamhengi er það að villan og annmarkinn hafði ekki áhrif á úrslit kosninganna. (Forseti hringir.) Það segja lögin og við verðum að fara eftir lögunum. Alþingi er ekki hafið yfir lögin varðandi úrslit kosninganna eða að túlka þau.

(Forseti (BÁ): Forseti vekur athygli á því að klukkan í ræðupúltinu hefur verið eitthvað að stríða okkur þannig að forseti verður að reyna að fylgjast með klukkunni og gefa þingmönnum merki með því að berja varlega í bjöllu.)