152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst dálítið gott hvernig hv. þingmaður orðaði það; ráðherrar sem urðu til og enginn vissi um nema formennirnir sjálfir. Ekki einu sinni fólkið sem samdi þessi fjárlög vissi af viðbótarráðherranum því að fjárheimild til launa ráðherra er óbreytt frá síðustu fjárlögum þó að einum ráðherra sé bætt við þetta. Það er ekki endilega hægt að kalla þetta bara ógagnsæi, þetta pukur formannanna með allt í kringum þessa stjórnarmyndun, ekki bara gagnvart þjóðinni eða okkur í stjórnarandstöðunni heldur sínu eigin fólki og starfsfólki ráðuneytanna, er alveg stjarnfræðilegt. Vegna þess að hv. þingmaður býr að reynslu sem sveitarstjórnarmaður í Reykjanesbæ um nokkuð langt skeið þá held ég að hann sé örugglega sammála mér, og ég ímynda mér flestum í þessum sal, um að stundum þarf aðeins að stokka upp í stjórnkerfinu. Stundum þarf að breyta verkefnum nefnda eða ráðuneyta þannig að þau skili sínu betur, nái kannski betur utan um stöðuna í sveitarfélaginu eða ríkinu á þeim tíma, að þau nái markmiðum ríkisins og ríkisstjórnar eða sveitarstjórnar betur fram. Mögulega hefur hv. þingmaður haft aðkomu að slíkum skipulagsbreytingum á sínum tíma í Reykjanesbæ. En er ekki rétt að byrja á hinum endanum, byrja á því að vinna greiningar, ræða við fólkið sem sinnir störfunum til að sjá hvernig sé hægt að nýta þessar breytingar til góðs frekar en að koma bara með einhvern stjórnarsáttmála ofan af Sínaífjalli og segja: Hér er þetta. Svona á þetta að vera, gott fólk, allir í bátana?