152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir um stjórnarsáttmálann. Við höfum það að markmiði að auka möguleika öryrkja til atvinnuþátttöku og helsti þröskuldurinn sem hefur verið í vegi fyrir því eru áhyggjur Öryrkjabandalagsins af starfsgetumatinu og einkum því að starfsgetumatið geti leitt til einhvers konar gildru þar sem svo virðist sem starfsgetumat sé til staðar en þegar á það er látið reyna þá gengur verr en menn vonuðust til og þá verði erfitt að komast aftur inn á gamla kerfið. Ég hef margoft lagt til að við bregðumst við þessu með því einfaldlega að tryggja ákveðna endurkomuleið inn á kerfið og það er á forræði félagsmálaráðherra að leiða þá vinnu og sú vinna hefur reyndar staðið yfir lengi. Það er ekki gott að bera saman frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega og öryrkja vegna þess að þetta eru ekki lengur sambærileg kerfi. Kerfisbreytingin sem við gerðum á ellilífeyri almannatrygginga árið 2016 (Forseti hringir.) breytti því kerfi í grundvallaratriðum en þá óskaði Öryrkjabandalagið eftir því að fá að njóta áfram óbreytts kerfis.