152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra. Það verður í öllu falli ekki seinna en í erfðafjárskatti sem ríkissjóður læsir klónum í hluta af þessum fjármunum aftur. En ég held að það sé nú verulega stór hluti sem skilar sér inn fljótlega aftur, bara í ljósi þess hvernig fólk nýtir viðbótarkrónur sem það hefur til ráðstöfunar.

Í seinna andsvari langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Ég veitti því ekki athygli, missti reyndar af fyrstu mínútu ræðunnar eða svo, en það varðar skattalega meðhöndlun nýorkubíla, hvort einhverra breytinga væri að vænta frá fyrri ákvörðunum. Ég finn þetta ekki í fljótu bragði í bandorminum og væri áhugavert að heyra, í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að verkefnið Allir vinna sé til sérstakrar skoðunar, hvort við megum eiga von á því að það komi einhverjar breytingar inn er varða skattlagningu nýorkubíla.