152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nú eiginlega einmitt punkturinn minn að ráðstöfunartekjurnar hefðu ekki getað vaxið ef við hefðum gengið of langt í skattlagningu launahækkana. Við hljótum að stefna að því markmiði að bæta lífskjör fólks, að tryggja að fólk fái að njóta erfiðisvinnu sinnar og fái að halda eftir sanngjörnum hlut af vinnuframlagi sínu. Þess vegna finnst mér hinn eini rétti mælikvarði í þessu efni vera ráðstöfunartekjurnar og kaupmáttur þeirra yfir tíma. Ef við erum í keppni við önnur lönd um skattbyrði þá held ég að við verðum með afskaplega mikla rörsýn á kerfið okkar. En um skattbyrðina, þróun hennar yfir tíma og þar með talið raunskattsskriðið, var skrifuð heilmikil skýrsla af Axel Hall fyrir nokkrum árum — hann er doktor í tekjuskatti og einn okkar allra færasti maður til að taka þetta til samanburðar, og gerði það mjög nákvæmlega — þar sem það er dregið fram, það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, að raunskattsskriðið er staðreynd. Ég held að ég myndi vilja lýsa því þannig að við hefðum þurft að gera leiðréttingu á tekjuskattskerfinu eftir breytinguna sem var tekin upp með staðgreiðslunni á sínum tíma þar sem kerfið skilaði ríkissjóði yfir tíma einfaldlega ekki þeim tekjum sem nauðsynlegar voru. Svo hefur sú mikla breyting átt sér stað í íslensku samfélagi að fleiri og fleiri hafa notið góðs af verðmætari störfum, við erum að framleiða svo miklu meiri verðmæti í dag, svo að við höfum staðið undir því að fólk láti hluta af launum sínum renna í tekjuskatt. Þetta er mikilvæg umræða. Ég segi: Ráðstöfunartekjurnar eru alfa og omega en skattbyrðin skiptir að sjálfsögðu máli, sérstaklega þróun skattbyrðinnar yfir tíma og svo þurfum við að horfa á hluti eins og tekjujöfnuð og slíka þætti.