152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins um lægstu tekjutíundina, fólkið á Íslandi sem býr við minnstu ráðstöfunartekjurnar, fólkið á Íslandi sem lifir við fátækt. Það að einhver á Íslandi, einu ríkasta landi heims, skuli lifa við fátækt er skammarlegt. Það eru að sjálfsögðu ánægjulegar fréttir í þessum svokallaða bandormi að ríkisstjórnin ætli að tvöfalda frítekjumark aldraðra á milli ára. Hins vegar er sorglegt að átta sig á því að sú aðgerð hefur einungis áhrif á um 1.400 af 40.000 öldruðum á Íslandi. Með öðrum orðum: Þetta hljómar eins og mjög gjafmild ríkisstjórn sem ætlar að gera mikið fyrir þá sem lifa við fátækt en sannleikurinn er sá að kostnaður ríkisins við þessa breytingu er ekki mikill. Nær hefði verið að ráðast í aðgerðir sem nýttust breiðari hóp aldraðra. Má þar t.d. nefna atriði sem var einnig nefnt í ræðu hér á undan, að hækka frítekjumark á eftirlaun úr lífeyrissjóðum, t.d. til jafns við atvinnutekjurnar, þ.e. upp í um 200.000 kr. á mánuði. Já, það er skammarlegt hvernig við förum með þær kynslóðir sem tryggðu þá velsæld sem við lifum við í dag.

En það eru ekki bara þeir öldruðu sem við hugsum ekki nógu vel um. Í dag eru yfir 21.000 manns með 75% örorku- eða endurhæfingarmat hér á landi. Þessi fjöldi hefur tvöfaldast frá aldamótum og hækkar ár frá ári. Um 30% þessa hóps eru undir fertugu og tveir þriðju eru konur. Þessi hópur á mjög erfitt með að sækja sér bjargir annars staðar en inn í sjálft almannatryggingakerfið þar sem íslenskur vinnumarkaður tekur lítið sem ekkert á móti fólki með skerta starfsgetu og bætur sem ríkissjóður greiðir skerðast mjög hratt ef öryrkjar reyna að vinna. Þannig er frítekjumark atvinnutekna öryrkja 109.600 kr. og hefur verið óbreytt í áratug. Ef verðlagshækkunum hefði verið fylgt væri þetta frítekjumark nú mun hærra. Að auki er lágmarksframfærslutrygging þeirra sem fá örorku- og endurhæfingarlífeyri um 265.000 kr. á mánuði fyrir þá sem ekki fá greidda svokallaða heimilisuppbót en 333.000 kr. hjá þeim sem fá slíka. Það þarf ekki að vera með doktorsgráðu, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vildi að einhver hefði, maður þarf ekki doktorspróf í stærðfræði til að komast að þeirri niðurstöðu að hér sé um fátæktargildru að ræða og að mjög erfitt sé fyrir fólk í slíkri stöðu að losna út úr þeirri gildru. Þetta er gildra þar sem m.a. eru engir hvatar til að taka þátt á vinnumarkaðnum. Á sama tíma og þessi mörk haldast þau sömu og lífeyririnn hækkar minna en launaskrið sjáum við annað í samfélaginu hækka og hækka eins og t.d. húsnæðiskostnað. Hér er kjörið tækifæri, fyrir ríkisstjórn sem vill raunverulega bæta kjör þeirra verst settu, til að hafa alvöruáhrif.

En þegar þetta er rætt, eins og t.d. við hæstv. ráðherra hér áðan, er fátt annað um svör en að verið sé að hugsa upp nýtt kerfi. Þangað til að þetta nýja kerfi tekur við, sem við fengum ágætissögukennslu um áðan að hafi verið rætt í áraraðir, mega þessir blessuðu öryrkjar og ellilífeyrisþegar bara lifa í fátæktargildru og geta beðið þangað til ríkisstjórnarflokkarnir ná saman um raunverulegar aðgerðir. En miðað við hvað tók þau í langan tíma að semja sín á milli um stóla myndi ég ekki halda niðri í mér andanum að þessar breytingar gerist hratt.

Eins og áður var nefnt eru einungis 1.400 af 40.000 ellilífeyrisþegum með atvinnutekjur og verða fyrir þeirri breytingu sem frítekjumark hefur áhrif á. Ég skil þetta að vissu leyti því að aldraðir eiga það skilið að þurfa ekki að vinna fram á síðustu stund til að geta lifað mannsæmandi lífi. En öryrkjar eru að stórum hluta ungt fólk sem hefur áhuga á því að taka virkari þátt í samfélaginu sé þess kostur. Núverandi kerfi, sem ríkisstjórnin heldur áfram að svelta, er þvert á móti letjandi. Það borgar sig ekki fyrir öryrkja að vinna hlutastörf. Það borgar sig ekki að leggja sitt af mörkum. Við þurfum að gefa öryrkjum tækifæri til að vinna ef þeir þess óska og öðlast þannig aftur þá starfsgetu sem þeir eiga skilið án þess að við séum að refsa þeim fyrir það. Ég vona því að ríkisstjórnin og nefndir innan Alþingis sem ræða þessi mál sýni þá forsjá að horfa til þess að tvöfalda frítekjumark sem fyrst, ekki bara tvöfalda heldur að gera frítekjumark öryrkja jafnhátt og þau leggja til að gera við aldraða.

Mig langaði líka að tala aðeins um barnabætur. Ríkisstjórnin talar mikið um hvað þau séu að gera góða hluti í að hækka barnabætur. Að sjálfsögðu er gott að þær séu að hækka á milli ára. En sannleikurinn er sá að þessar hækkanir duga ekki til að halda í við hækkandi útgjöld. Það er líka mikilvægt að muna að fyrir marga, sér í lagi ungt fólk með börn, er þetta lífsnauðsynleg búbót til þess að geta veitt börnum sínum mannsæmandi lífsgæði. Einnig er vert að hafa í huga að barnabætur eru í raun ekki styrkur eða bætur heldur er þarna verið að tala um ákveðna tilfærslu á milli kynslóða. Við sem eigum börn sem hafa vaxið úr grasi erum að borga að hluta til hærri skatta sem yngra fólk sem er með börn er að fá í formi barnabóta. Hægt er að tala fallega um að við séum að hækka barnabæturnar en raunveruleikinn er sá að Ísland er langt undir meðaltali OECD-ríkjanna, svo að ekki sé talað um Norðurlandanna sem eru með mun ríflegri stuðning en við erum með hér á landi. Ísland er t.d. eina landið á Norðurlöndunum fyrir utan Danmörku sem skerðir barnabætur vegna tekna. Í Danmörku er miðað við mun hærri upphæðir en hér. Hér skerðast barnabætur strax við lágmarkslaun. Danirnir völdu skemmtilega upphæð vegna þess að þeir byrja að skerða við svipuð laun og þingmenn fá. Kannski ættum við að hugsa hvort þetta væri ekki eitthvað sem við gætum tekið upp.

Já, það er til skammar að á Íslandi skuli vera fólk sem lifir við fátækt. Við sem hér sitjum berum þá ábyrgð að bæta úr slíku.