152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Ég verð bara að segja að mér finnst þetta skelfilegt. Það er alveg sama hvernig á þetta er litið vegna þess að það áttu að vera 7% um síðustu áramót, lágmark, og ef við værum að gera eitthvað rétt þá værum við líka með lágmark sjö komma eitthvað prósent um þessi áramót. Í heildina ættu þetta því að vera 15%. En ég set alltaf spurningarmerki við þetta. Það setur alltaf að mér kuldahroll við tilhugsunina um þessar prósentuhækkanir vegna þess að þetta eru lágar bætur. Þeir sem eru lægstir þarna, þeir sem eru í búsetuskerðingum, eru þarna rétt um 250.000 kr. fyrir skatt, þeir sem eru á besta stað þar. Síðan er byrjað að skerða og þeir eru komnir með krónu á móti krónu skerðingar inn í dæmið, komnir aftur með þetta ógeð, krónu á móti krónu skerðingar, sem er ekkert annað en 100% eignaupptaka.

Hvað skila svona hækkanir þessu fólki? Við vitum það ekki, en við vitum að þetta er ofboðslega misjafnt. Sumir fá jú eitthvað út úr þessu kerfi og geta verið sæmilega ánægðir með kannski 4.000–5.000 kr. í vasann á mánuði. En aðrir, sem lenda verst í þessu og fara jafnvel yfir í félagsbætur sveitarfélaganna og sérstöku húsaleiguuppbótina og skerðast þar, þeir tapa. Þeir geta aldrei grætt á þessu.

Eina leiðin fyrir þennan hóp er að breyta kerfinu eða, sem ég hef alltaf sagt, að setja þetta í gegnum skattkerfið: Hættum að skatta fátækt. Tökum þetta gegnum skatt. Og hvaða afleiðingar hefur það líka? Ef við tökum þetta í gengum skatt þá hefur það ekki áhrif á verðlagið. En ef við setjum þetta hinum megin þá byrjar boltinn að rúlla. Allar þessar prósentuhækkanir valda því að boltinn fer að rúlla og verðbólgan eykst. Og hverjir sitja sárastir eftir?