152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála því að áfengisgjaldið er komið í hæstu hæðir og að þolmörkum í rauninni gagnvart ýmsum atriðum hvað það varðar, sérstaklega þegar maður reynir að horfa á tilgang þess. Ef tilgangur áfengisgjaldsins á beinlínis að vera að draga úr neyslu og það er gert með því að hafa áfengi dýrt þá vitum við að það virkar að hluta til ekki. En ef það á að vera til þess að fjármagna forvarnir og viðbrögð við þeim skaða sem áfengi veldur vissulega þá er ekki neitt rökrétt samhengi þar á milli. Það vantar einmitt. Það vantar að stjórnvöld útskýri fyrir okkur að verið sé að taka sanngjarnt gjald fyrir þjónustu sem við ákveðum lýðræðislega. Það er grundvöllur samfélagssáttmálans að við séum ekki að taka bara einhverjar ákvarðanir hérna sem okkur dettur í hug, af því að mér fannst það sniðugt, ég ætla að gera þetta svona. Það þarf að vera meira lýðræði í þessu. Kosningar snúast um það og lýðræðið snýst um meira en að vera bara með kosningar á fjögurra ára fresti. Þetta er kjarni þeirra laga sem var breytt 2015, laga um opinber fjármál, að stjórnvöld setji skýra stefnu um það sem ríkisstjórnin vill ná fram og útskýri fyrir okkur hvernig samfélagið verði betra, hagkvæmara, skilvirkara, auðugra, hamingjusamara o.s.frv. með því að fylgja stefnu stjórnvalda og fjármagna hana, því að hún er að vissu leyti fjármögnuð með t.d. áfengisgjaldi. Og fyrst áfengisgjaldið fjármagnar meira en er notað í forvarnir þá getur maður sagt að áfengisgjaldið fjármagni vegagerð. (Forseti hringir.) Er það sanngjörn notkun á skatti? Ég er ekki viss.