152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég veit ekki hvort varð af því en fyrir 30 árum var m.a. rætt um að búa líka til Evu en hún átti að geta svarað þingmönnum og ríkisstjórn hvaða áhrif aðgerðir hefðu á umhverfið. Mér fannst þetta framsýni þá og skrýtið að við skulum ekki vera með þetta í dag hér innan lands.

Hv. þingmaður nefndi nefnilega eitt dæmi undir lok ræðu sinnar um þessar 2,5% hækkanir. Ég hafði einmitt hugsað svolítið þegar ég sá þær: Já, en hvaða áhrif hefur þetta á verðbólguna? Er það að setja inn slíkar hækkanir ekki að hafa áhrif út á við á verðbólguna þó svo að inn á við hafi það þau áhrif að erfiðara getur verið fyrir þá sem framkvæma eitthvað fyrir sama pening að ná fram einhverjum hlut? En kannski er hægt að finna peninga annars staðar í það. Telur hv. þingmaður að ef við hefðum einhver slík tól, einhverjar leiðir til að svara þessu, að við sem þingheimur tækjum kannski öðruvísi og betri ákvarðanir og settum ekki verðbólguna óvart í gang eða óvart á meiri hraða heldur en hún annars er?