152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

skattar og gjöld.

4. mál
[18:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti Ég mæli hér með fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Efnisatriði frumvarpsins eru af margvíslegum toga og ég hyggst reyna að gera grein fyrir hverjum og einum af helstu þáttum.

Það er í fyrsta lagi almannaheillaskrá. Með lögum sem öðluðust gildi 1. nóvember sl. voru gerðar breytingar til eflingar á skattumhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann. Í lögunum er gert ráð fyrir að fyrirtækjaskrá Skattsins haldi sérstaka almannaheillaskrá og gert ráð fyrir því í lögunum að viðkomandi lögaðili sem veitir viðtöku framlagi sé skráður í skrána þegar gjöf eða framlag er afhent. Þar sem Skatturinn mun halda almannaheillaskrá ólíkt almannaheillafélagaskrá, sem fyrirtækjaskrá Skattsins heldur, er lagt til að tilvísun til fyrirtækjaskrár verði felld brott úr lögunum. Þá er lagt til að í stað tilvísunar til laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri verði vísað til laga um félög til almannaheilla vegna skráningar og hæfis lögaðila eftir því sem við á í almannaheillaskrá Skattsins.

Í lögum um tekjuskatt er kveðið á um að lögaðilar sem hafa með höndum starfsemi sem telst til almannaheilla og skráðir eru í sérstaka almannaheillaskrá Skattsins greiði ekki tekjuskatt. Lagt er til að í lögunum verði annars vegar kveðið á um það skilyrði fyrir skráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á ársreikningi til ríkisskattstjóra og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila. Hins vegar að ákvörðun ríkisskattstjóra um höfnun á skráningu eða afskráningu verði kæranleg til yfirskattanefndar. Þá þykir jafnframt rétt að kveða á um kærufrest hafni ríkisskattstjóri lögaðila um skráningu í almannaheillaskrá eða úrskurði aðila af almannaheillaskrá. Þá þykir ástæða til að upplýsingaskylda þeirra sem skráðir eru í almannaheillaskrá sé tilgreind sérstaklega í lögum um tekjuskatt, vegna eftirlitshagsmuna.

Næst er það um skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa. Í frumvarpinu er lagt til að gildistími úrræðis varðandi skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa verði framlengdur um þrjú ár. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að einstaklingar geti nýtt sér frádrátt frá tekjuskattstofni, að viðbættum fjármagnstekjum, vegna fjárfestinga á árunum 2016–2021. Að óbreyttu yrði því síðasta skattívilnunin veitt við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna fjárfestinga á árinu 2021. Framlenging úrræðisins er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka aðgengi að fjármagni fyrir bæði nýsköpunarfyrirtæki og smærri fyrirtæki í vexti og er talið að úrræðið geti haft mikla þýðingu fyrir slík fyrirtæki.

Þá að refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna. Samkvæmt tekjuskattslögum skal leggja fjármagnstekjur hjóna saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hefur hærri hreinar tekjur. Þegar skýrt er rangt eða villandi frá einhverju um fjármagnstekjurnar í sameiginlegu framtali hjóna er einungis háttsemi þess tekjuhærri lýst refsiverð. Telja verður eðlilegt að saknæmið og refsinæmið snúi að þeim sem tekjurnar tilheyra og telur þær ekki fram í sameiginlegu framtali. Því er lagður til nýr málsliður þess efnis að refsiákvæði laganna taki einnig til tekjuskatts af þeim tekjum sem tilheyra tekjulægri makanum en telja ber fram hjá því hjónanna sem hærri hefur tekjur.

Í fjórða lagi er það skipting gjalddaga þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga og útvarpsgjalds. Í frumvarpinu er að finna tillögur sem tengjast skiptingu gjalddaga þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga og útvarpsgjalds. Fyrirkomulag skiptingar greiðslna niður á nokkra gjalddaga hefur valdið flækjustigi í framkvæmd þegar gjaldendur greiða eftirstöðvar upp á fyrsta gjalddaga. Þannig myndast inneign sem ber inneignarvexti á meðan eldri skuld fellur í gjalddaga. Því er lagt til að við framtalsskil geti framteljandi óskað eftir að greiða eftirstöðvar álagðra skatta og gjalda í einu lagi á fyrsta gjalddaga eftir álagningu en ella verði eftirstöðvunum skipt á hefðbundna gjalddaga samkvæmt gildandi lögum.

Í fimmta lagi eru það fjárhæðarmörk skattskyldu við sölu á raforku eða heitu vatni. Hér er lögð til sú breyting á fjárhæðarmörkum að þau verði hækkuð. Samkvæmt lögum um umhverfis- og auðlindaskatta eru þeir sem selja raforku eða heitt vatn til endanlegra notenda fyrir minna en 500.000 kr. á ári undanþegnir skattskyldu. Lagt er til að fjárhæðarmörkin verði hækkuð í 2 milljónir en við mat á fjárhæðinni er meðal annars litið til veltumarka virðisaukaskatts. Við lögfestingu laga um umhverfis- og auðlindaskatta áttu fjárhæðarmörk skattskyldunnar sér samsvörun í veltumörkum laga um virðisaukaskatt, þ.e. 500.000 kr. Sú fjárhæð hefur ekki tekið breytingum í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á veltumörkum virðisaukaskatts. Hins vegar var fallið frá skattlagningu af raforku frá og með árinu 2016 og því tekur tillagan einungis til fjárhæðarmarka við sölu á heitu vatni. Hækkunin einfaldar rekstrarumhverfi aðila með lítil umsvif og auðveldar eftirlit. Þá er einnig lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við orðalag laga um virðisaukaskatt, þ.e. að miða skuli við tekjur á hverju tólf mánaða tímabili, en ekki almanaksárið.

Næst eru það frekari breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Samkvæmt lögunum skal miða skattverð vöru sem afhent er án endurgjalds við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Liggi slíkt verð ekki fyrir skuli miða skattverð við reiknað útsöluverð þar sem tekið er tillit til alls kostnaðar að viðbættri þeirri álagningu sem almennt er notuð á vörur eða þjónustu af sama tagi. Í skattframkvæmd hefur skráðum aðila m.a. borið að greiða virðisaukaskatt af andvirði vöru jafnt sem skattskyldrar þjónustu sem afhent er án endurgjalds og miðar tillaga frumvarpsins að því að skjóta styrkari stoðum undir þá framkvæmd. Þá er lagt til að tekin verði upp í lögin sérregla um skattverð þegar skattaðili móttekur notað lausafé í eigu einstaklinga utan rekstrar í umboðssölu. Skattaðili kemur þá fram í nafni eiganda og fyrir hans reikning. Sérreglan heimilar umboðsmanni að miða skattverð við söluþóknun samkvæmt samningi aðila að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Séu þau skilyrði ekki uppfyllt kemur til álita að fella viðskipti undir sölumiðlun enda séu skilyrði hennar uppfyllt. Að öðrum kosti ber skattaðila að innheimta virðisaukaskatt af heildarandvirði hins selda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

Næst um losunarviðmið. Gert er ráð fyrir breytingum í tengslum við losunarviðmið ökutækja en álagning skatta og gjalda á ökutæki tekur að vissu marki mið af skráðri losun koltvísýrings við notkun. Þannig er lagt til að þegar fyrir liggur að losunarviðmið er skráð bæði samkvæmt evrópsku aksturslotunni svokölluðu og samræmdu prófunaraðferðinni svokölluðu skuli eingöngu miða við skráða losun samkvæmt síðarnefndu aðferðinni. Hún er nýrri og öflugri og talin ráðandi við mat á koltvísýringslosun.

Þá að útleigu vistvænna ökutækja. Þar eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt vegna ákvæðis til bráðabirgða XXXIX. Ákvæðið mælir fyrir um að útleiga á skráningarskyldu ökutæki sem fallið hefur undir ívilnun á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXIV sé að fullu undanþegin skattskyldri veltu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ákvæði til bráðabirgða XXIV kvað áður á um sérstaka virðisaukaskattsívilnun vegna annars vegar innflutnings og skattskyldrar sölu á nýjum rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum og hins vegar vegna innflutnings og fyrstu sölu á notuðum rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Ákvæðinu var breytt árið 2020 og það m.a. látið ná til endursölu á notuðum rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Telja verður eðlilegt að sambærileg sjónarmið gildi í báðum þessara tilvika og er því lagt til að ákvæði til bráðabirgða XXXIX nái jafnframt til framleigu á ökutækjum, sem notið hafa fyrrnefndrar ívilnunar, að uppfylltum öðrum skilyrðum sem koma fram í ákvæðinu.

Skilagrein með skilum á launaafdrætti er hér næst. Það er gert ráð fyrir breytingu á svokölluðum launaafdrætti, þ.e. þegar opinber gjöld eru ógreidd er innheimtumanni heimilt að krefja vinnuveitanda um að halda eftir allt að 75% af heildarlaunagreiðslum til launþega hverju sinni. Lagt er til að áréttað verði í lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda að launagreiðanda sé skylt að senda skilagrein með skilum á afdregnum sköttum sem honum bar að halda eftir af launum, en annars er hætta á að greiðslunni verði ekki ráðstafað með réttum hætti.

Næst um heimildir til kyrrsetningar eigna. Í frumvarpinu er að finna tillögur að breytingum á heimild til kyrrsetningar eigna. Með lögum um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn skattalagabrota voru lögfest skýr skil milli stjórnsýslumála sem eru afgreidd innan skattkerfisins og alvarlegri mála sem sæta refsimeðferð samkvæmt útgáfu fyrirmæla ríkissaksóknara. Vegna þessa þykir nauðsynlegt að gera breytingar á kyrrsetningarákvæði laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda í þá veru að kyrrsetningarheimildin taki einnig til meintrar refsiverðrar háttsemi sem varðar sektarákvörðun samkvæmt lögum um tekjuskatt, virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Rannsókn og ákvörðun sekta vegna skattundanskota er nú í höndum ríkisskattstjóra í þeim tilvikum þegar þau falla ekki undir fyrirmæli ríkissaksóknara. Yfirskattanefnd fer því ekki lengur með sektarheimildir í stærri málum heldur er nefndin í hlutverki sjálfstæðrar kærunefndar sem tekur við kærum vegna ákvarðana ríkisskattstjóra um að leggja á sektir.

Breytingartillagan er í samræmi við athugasemdir í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn skattalagabrota þar sem fram kemur að ekki sé stefnt að breytingum á heimildum ríkisskattstjóra til að beita viðurlögum.

Jafnframt er lögð til sú breyting að heimila kyrrsetningu á meðan mál er til meðferðar hjá lögreglu eins og í tilviki mála sem eru til skattrannsóknar og myndi ríkisskattstjóri þá annast rekstur kyrrsetningarinnar vegna rannsóknarinnar óháð því hvar hún fer fram. Þetta getur t.d. átt við þegar ekki hefur verið gerð krafa um kyrrsetningu hjá ríkisskattstjóra en nýjar upplýsingar koma fram eftir að máli hefur verið vísað til lögreglu. Þá eru einnig lagðar til smávægilegar orðalagsbreytingar. Að lokum er að finna tillögu að viðbót við lög um fjársýsluskatt sem felur í sér vísun til kyrrsetningarákvæðis laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.

Næst um gjöld fyrir skráningu félaga til almannaheilla. Hér eru lagðar til breytingar vegna slíkra gjalda. Lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri voru sérstaklega sett til að bregðast við og uppfylla tilmæli FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og var hluti af þeim aðgerðum sem stjórnvöld gripu til vegna athugasemda FATF.

Eins og fram kemur í greinargerð með þeim lögum voru þessi félög talin í mestri hættu á að vera misnotuð og var skráningarskylda þeirra í almannaheillafélagaskrá lögfest. Samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs er gjald til skráningar félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri 83.000 kr. Gjaldið telst nokkuð hátt og talin hætta á að valin verði önnur félagaform og starfsemi félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri verði þannig falin, en það er staða sem sérstaklega átti að taka á og koma í veg fyrir. Því er lagt til að skráningargjaldið verði lækkað í 25.000 kr. sem er jafnt skráningargjaldi annarra félaga eða sambærilegra aðila. Þá er jafnframt lagt til að félög til almannaheilla sem falla undir lög um félög til almannaheilla greiði sama gjald fyrir skráningu eða 25.000 kr.

Varðandi mat á áhrifum tillagna frumvarpsins má segja að áhrif af tillögu um að framteljanda verði heimilt að óska eftir því við framtalsgerð að greiða eftirstöðvar þing- og sveitarsjóðsgjalda og útvarpsgjald á einum gjalddaga í stað þess að þær skiptist á sjö eða þrjá gjalddaga er talin vera mjög óveruleg en hagræðið hins vegar talsvert. Flækjustig við útgáfu reikninga og innheimtu verður minna fyrir Fjársýslu ríkisins og ríkissjóður mun jafnframt hafa hag af því að greiðslur skili sér fyrr í ríkissjóð. Sparnaður yrði einnig einhver þar sem mun færri kröfur yrðu stofnaðar í bankakerfinu.

Ný regla sem heimilar að virðisaukaskattur sé einungis lagður á þóknun milligönguaðila þegar notað lausafé í eigu einstaklinga er selt í umboðssölu ætti að óbreyttu að lækka verð á notuðum varningi, hvort sem það er húsbúnaður, leikföng, fatnaður og annað sem kann að vera selt er með slíku fyrirkomulagi. Aðilar sem bjóða slíka þjónustu verða sífellt fleiri og óvíst er hvort virðisaukaskatti hafi í öllum tilvikum verið skilað af fullu söluverði hingað til þar sem nokkur vafi hefur verið uppi um gildandi reglur um skattverð. Gera má ráð fyrir því að bein áhrif af þessari breytingu á tekjur ríkissjóðs verði óveruleg.

Varðandi skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa er áætlað að úrræðið muni leiða til lækkunar á tekjum ríkissjóðs um 30 millj. kr. árið 2022 vegna yfirstandandi árs. Ef úrræðið yrði framlengt um þrjú ár má áætla, miðað við þessar 30 millj. kr. á yfirstandandi ári, að þriggja ára framlenging gæti numið 90 millj. kr. lækkun á þessum skatti. Á móti verður að horfa til þeirra jákvæðu áhrifa sem vonast er til að þessi ívilnun hafi í för með sér til lengri tíma.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu samanlagt ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, einstaklinga eða lögaðila. Þetta eru að sumu leyti einfaldlega breytingar sem metið er að nauðsynlegt sé að gera og munu þess vegna leiða til þess að viðkomandi löggjöf á sviði skattamála verði skýrari.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.