152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:41]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að leyfa mér að efast um það að margir af þeim bændum sem stunda þennan búskap hafi gert það að eigin frumkvæði. En þar er ég í rauninni í lausu lofti, þetta er bara samkvæmt því sem ég hef heyrt frá mörgum þeirra sem stunda þessa iðju. Allir sem ég hef talað við, sem eru nokkuð margir, myndu þiggja það með þökkum ef þeim yrði bættur tekjumissirinn vegna þessarar iðju sem hefur meira verið til komin, eins og ég þekki það, vegna hvatningar frá fyrirtækinu Ísteka, sem hefur farið þess á leit við bændurna að þeir stundi þessa iðju.

Mig langar líka að benda hv. þingmanni á það að mér fannst einhvern veginn eins og hann héldi að sveitin í dag og bændurnir í dag væru eins og þetta var hér fyrir 40 árum síðan. Það er ekki svo. Það er bara alls ekki svo. Það er allt önnur meðferð og gæðalegri meðferð. Það þykir í rauninni virkilega ljótur bóndi sem níðist á kúnum sínum eða hverju öðru. Og þegar hv. þingmaður sækir sex hross upp á heiði eða hvert sem er annað, villt hross — ég gæti trúað honum í góðmennsku sinni til að læða frekar að þeim eplabita eða einhverju slíku til þess að narra þá til sín og reyna að vera elskulegur við þá en að sparka í þá. Ég býst við því, enda myndi það vera svona frekar sæmileg og virðingarverð hegðun, myndi ég segja, gagnvart skepnunni, að efla traust hjá henni og vera vinur hennar. Og ég er alveg 100% viss um að það er það sem hv. þingmaður hefur gert. Þess vegna var hann svona klókur að ná þessum villtu hestum með sér.